Nokkrir leikmenn ÍR skrifuðu á dögunum undir leikmannasamning í fyrsta sinn við félagið sitt. Það er stefna körfuknattleiksdeildar ÍR að allir leikmenn geri slíkan samning.
,,Það hefur ekki tíðkast hingað til að allir leikmenn liðsins skrifi undir leikmannasamning. En að mínu mati er það grunvallarforsenda fyrir góðu og tryggu starfi bæði fyrir þjálfara og leikmenn að sá háttur sé hafður á. Þetta á líka að vera til þess að leikmenn finni traust og verði tilbúnir að leggja meira á sig til að ná betri árangri. Að metnaður og áræðni fylgist að." sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR.
Einnig skrifaði Vilhjálmur Steinarsson undir samning sem styrktarþjálfari liðsins. Á myndina vantar þá Eirík Önundarson, Ásgeir Hlöðversson og Benedikt Skúlason. Þorgrímur Kári Emilsson er einn þeirra sem skrifaði undir við ÍR en hann varð um helgina Norðurlandameistari með U16 ára landsliði Íslands.
Á myndinni eru, frá vinstri: Gunnar Sverrisson þjálfari, Kristinn Jónasson, Þorgrímur Kári Emilsson, Vilhjálmur Theodór Jónsson, Björgvin Jónsson, Davíð Fritzson, Vilhjálmur Steinarsson, Gunnar Þór Gunnarsson formaður kkd ÍR og Elvar guðmundsson.



