spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÍR með yfirhöndina gegn Hamri

ÍR með yfirhöndina gegn Hamri

Einn leikur fór fram í fyrstu deild kvenna í kvöld þar sem ÍR tók á móti Hamri. Frá upphafi leiks sýndi ÍR góðan liðsbolta og endaði það í 11 stiga sigri á gestunum frá Hveragerði.

Mikil barátta var í leiknum en þó var ÍR ávallt einu skrefi á móti andstæðingnum. ÍR spilaði hörku vörn og hélt gestum sínum í þægilegri fjarlægð frá sér. Hamar átti á köflum í miklum erfiðleikum með sóknarleik sinn, helst vegna þess að ÍR sýndi hörku í vörninni með miklum talanda og baráttu. ÍR hefði þótt mætt bæta í forskot sitt á gestunum. Þær voru að spila frábæran körfubolta en hittu illa.

Hamar datt í svæðisvörn eftir skoraðar körfur sem hafði mikil áhrif á sóknarleik ÍR-inga, það vantaði alla hreyfingu í sóknina hjá ÍR. Erfitt er að spila á móti svæði ef það er ekkert flæði í sóknarleiknum, ásamt því að tapa flæðinu í sóknarleiknum glötuðu ÍR-ingar allri yfirvegun.

Það var mikið um mistök og klaufaleg brot hjá heimakonum. Hamar náði að jafna leikinn áður en ÍR skoruðu sín fyrstu stig í öðrum leikhluta. Það var ekki fyrr en rétt fyrir hálfleik að ÍR fann taktinn sinn aftur, það var eins og að horfa á allt annað lið spila. Þær voru fljótar að rífa sig upp eftir niðursveiflur, þær gerðu í því að hvetja hvor aðra áfram og voru nokkuð sannfærandi rétt fyrir hálfleik. Aftur á móti vantaði alla liðsheild og trú hjá gestunum, þær voru andlausar og virtust þær vera tilbúnir að skella sér í sturtu og keyra aftur yfir Heiðina.

Hamars konur hættu snarlega við heimförina og mættu tilbúnar í þriðja leikhlutann. Þær byrjuðu sterkt og minnkuðu muninn hratt og örugglega í eitt stig. Jóhanna var ekki á sama máli og steig upp fyrir ÍR, hún er eitt helsta vopn ÍR-inga í vörninni, hún er í öllum baráttum um fráköst og spilar árásagjarna vörn (sem endaði ekki betur en svo að hún fór útaf með fimm villur, en þessi baráttuandi var einmitt það sem ÍR þurfti á að halda). Það er ótrúlegt að ÍR hafi ekki verið að vinna með meiri mun, þær voru að spila vel saman en skotnýtingin þeirra var skelfileg.

Bæði lið voru reyndar að hitta illa, en ÍR-ingar þurfa að setja niður sniðskotin sín ef þær ætla að landa fleiri sigrum í vetur. Sorglegt er að segja frá því að Hamar missti hina ungu og efnilegu Helgu Sóley af velli snemma í þriðja leikhluta vegna höfuð meiðsla, vonum innilega að hún jafni sig fljótt á þessu, sendum henni batakveðjur.

Í fjórða leikhluta var annað hvort að duga eða drepast, munurinn aðeins fimm stig og hvort lið fyrir sig átti bullandi tækifæri á því að uppskera sigur. Hamar var ennþá að spila svæði eftir skorða körfu og ÍR-ingar áttu ennþá í erfiðleikum með sóknarleik sinn gegn svæðinu. Aftur á móti sýndi ÍR sinn rétt lit á móti maður á mann vörn Hamars, Hamar skipti því alfarið yfir í svæðisvörn en mætti segja að það hafi verið of seint. ÍR-ingar voru komnir á siglingu og Hamar átti fátt um svör.

Nína Jenný átti stórkostlega senu undir lok fjórða leikhlutans þar sem hún blokkaði skot frá leikmönnum Hamars í tvígang í sömu sókninni. Það kveikti í öllu ÍR liðinu og sigldu þær sigrinum heim. Lokastaða 54 – 43 (glöggir áhugamenn munu líklegast taka eftir því að stattið segir annað, því miður er stattið ekki rétt).

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Regína Ösp Guðmundsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -