spot_img
HomeBikarkeppniÍR með heimaleik í bikarnum - Bryndís "Tækifæri fyrir okkur að máta...

ÍR með heimaleik í bikarnum – Bryndís “Tækifæri fyrir okkur að máta okkur við úrvalsdeildina”

ÍR dróst í hádeginu í dag með heimaleik gegn Skallagrím í Geysisbikarkeppni kvenna. Leikurinn spilast 19.-20. janúar næstkomandi.

Bryndís Gunnlaugsdóttir, aðstoðarþjálfari ÍR, var mætt í bikardráttinn og stóð fyrir svörum að honum loknum. Hún kvaðst hafa vitað að drátturinn yrði erfiður. “Eina sem ég vonaðist eftir var heimaleikur út af því að við vissum að það yrði úrvalsdeildarlið,” sagði Bryndís, en ÍR var eina 1. deildar liðið sem komst í 8-liða úrslitin.

“Mér líst bara vel á þetta, tækifæri fyrir okkur að máta okkur við úrvalsdeildina,” sagði Bryndís um að vera dregin gegn sterku liði Skallagríms. ÍR er í fimmta sæti 1. deildar kvenna á meðan að Skallagrímur er í fjórða sæti Dominosdeildar kvenna. “Skallagrímsliðið er vel mannað og er að fara fram úr væntingum spámanna. Nú fá stelpurnar okkar tækifæri til að spila við fullt af atvinnumönnum,” segir Bryndís og virðist spennt fyrir þessu krefjandi verkefni.

Þó að munurinn á liðunum virðist vera heldur mikill hefur aðstoðarþjálfari ÍR-inga litlar áhyggjur. “Við stefnum alltaf á að sigra, skiptir engu máli hvort við erum að fara spila við Dominosdeildar lið eða 1. deildar lið. Við förum í leiki til að fara eftir okkar plani, spila okkar leik og vonumst til þess að það dugi til að vinna,” segir hún af þó nokkru öryggi.

Liðið sem að vinnur leikinn fer í undanúrslit Geysisbikarsins sem verður í Laugardalshöllinni í febrúar. Hver veit nema ÍR komi öllum á óvart? “Alltaf gaman að svona bikarævintýrum. Af hverju ekki við?” Bryndís kallaði eftir góðri umgjörð á leiknum og treysti sínu fólki inna félagsins til þess. “Ég er sannfærð um að stjórnin setjist niður og geri svolítið mikið úr þessu,” sagði hún.

Góð heimaleikja umgjörð er þó væntanlega ekki nóg eitt og sér til að vinna þennan leik. “Þjálfararnir og leikmenn þurfa að setjast niður og byrja plana leikinn. Fyrst þurfum við að klára leikina í deildinni áður en við förum að pæla í bikarnum. Þegar við komum nær bikarleiknum þá byrjar undirbúningurinn,” segir Bryndís. En hvernig þá? Hvað þarf ÍR að gera til að vinna gegn feiknasterku Skallagrímsliði?

“Planið er að verða betri með hverjum deginum, standa okkur í deildarleikjunum og mæta tilbúin í þessa bikarkeppni. Ég veit við munum hitta á góðan leik gegn Skallagrím,” sagði hún að lokum.

Fréttir
- Auglýsing -