spot_img
HomeFréttirÍR-ingar skutu áhugalitla Grindvíkinga í kaf

ÍR-ingar skutu áhugalitla Grindvíkinga í kaf

ÍR-ingar tóku á móti Grindvíkingum í Hertz-hellinum í kvöld. Bæði lið hafa átt góðu gengi að fagna undanfarið, tóku tvö stig í síðustu umferð og komu sér jafnframt í undanúrslit bikarkeppninnar. Í bikarkeppninni þurfti þó Sverrir Þór, þjálfari Grindavíkur, að sætta sig við tap sem leikmaður Hraðlestarinnar einmitt í þessu húsi gegn ÍR-ingum.
 
 
Sveinbjörn ,,Klassi“ opnaði leikinn með 5 stigum en gestirnir svöruðu vel og komust í 7-10. Þá ákvað önnur skotklukkan að hætta að virka en glöggt er gests augað og eftir nokkra reikistefnu bjargaði Siggi Þ. málunum með ,,slaghamarsviðgerð“ og gerði við skotklukkuna með því að dúndra boltanum í hana. Leikurinn gat þá haldið áfram en svona tafir eru auðvitað alltaf mjög bagalegar. Liðin virtust þó koma vel undan þessu og buðu þau upp á fín tilþrif. Björgvin bauð upp á eina fína Vesturlandstroðslu en Ómar svaraði að bragði með glæsilegu ,,plúsvítaskot-sniðskoti“ úr erfiðu færi. Skotklukkan ákvað þá að detta aftur út og þrátt fyrir ítrekuð ofbeldisverk gagnvart henni dugði það ekki til og starfsmenn hússins komu upp skotklukkum á gólfið. Grindavík héldu þriggja stiga forskoti eftir fyrsta, 23-26.
 
Gestirnir byrjuðu mun betur í öðrum leikhluta. Þeir unnu nokkra bolta og fengu auðveldar körfur í hraðaupphlaupum. Staðan skyndilega 30-38 og útlit fyrir að Grindvíkingar væru búnir að fá sig fullsadda á því að þurfa að vinna upp 15-20 stiga forskot á útivöllum eins og þeir hafa þurft að gera ítrekað í vetur. En það var hins vegar ekki að sjá í framhaldinu því ÍR-ingar settu á svið skotsýningu og fengu meira og minna algeran frið til þess! Matthías, Borgnesingurinn snjalli og Moore negldu niður fimm þristum á skömmum tíma og staðan heldur betur breytt, 49-40. Matti endaði svo leikhlutann með enn einum þristi og staðan 52-47 í hálfleik.
 
Þriggja stiga sýningin hélt áfram hjá heimamönnum í þriðja leikhluta og gestirnir virtust ekki hafa geð í sér til að spila grimmari vörn. ÍR-ingar komust í 67-51 og holan orðin djúp fyrir gestina. Það var helst ágæt tilþrif Lewis og Ómars sóknarlega sem gerði það að verkum að gestunum tókst að klóra sig aðeins nær og voru aðeins ellefu stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 82-71.
 
Grindvíkingar hafa marga öfluga og reynda leikmenn í sínum röðum og byrjuðu strax að naga sig nær í fjórða leikhluta. Ómar og Lewis spiluðu mjög vel og greina mátti smá skjálfta í heimamönnum. Þegar um fjórar mínútur voru eftir höfðu gestirnir minnkað muninn í 84-80 og allt galopið. Tveimur mínútum síðar minnkaði svo Lewis muninn í 89-87 með feitum þristi og rúmar tvær eftir. Ekkert var svo skorað fyrr en brotið var á Björgvini er 33 sekúndur voru eftir og pilturinn frá Höfuðstaðnum smellti báðum eins og alvöru menn gera. Lewis svaraði með tveimur hinum megin og aftur var Björgvin mættur á vítalínuna er 21 sekúnda var eftir. Að þessu sinni fór annað skotið niður og þriggja stiga munur. Klassi braut svo klaufalega á Lewis í þriggja stiga skoti en heimamönnum til happs geigaði fyrsta skotið og heimamenn enn með eins stigs forskot. Hjalti brást svo ekki á línunni, setti bæði og þriggja stiga skot Þorleifs undir lokin vildi ekki ofan í. Tvö vítaskot frá Moore í blálokin reyndust svo mjög mikilvæg því Siggi Þ. setti flautuþrist sem dugði þó skammt, lokatölur 96-94.
 
ÍR-ingar spiluðu gríðarlega vel í þessum leik og leikmenn geisla af sjálfstrausti. Þeir voru í raun óheppnir að sigra ekki topplið KR-inga fyrir skömmu en sigurinn á Hraðlestinni ásamt góðum útisigri gegn Haukum hefur blásið þeim byr í brjóst. Fjölmargir lögðu sitt af mörkum í þessum leik en atkvæðamestur var Moore með 22 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Matthías setti 18 stig og gaf 10 stoðsendingar en fjórir aðrir leikmenn skoruðu 10 stig eða meira í leiknum. Vert er að minnast á að hinn 19 ára gamli Ragnar Bragason setti 4 mikilvæga þrista í 6 skotum í leiknum.
 
Hjá Grindvíkingum stóð Lewis fremstur með 25 stig og 8 stoðsendingar og Ómar átti góðan leik með 18 stig og 9 fráköst. Heildina á litið var liðið hins vegar ekki að sýna sparihliðarnar og þurfa leikmenn að endurskoða hugarfarið ætli þeir sér að sigra körfuboltaleiki í nánustu framtíð.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -