spot_img
HomeFréttirÍR-ingar lönduðu góðum sigri

ÍR-ingar lönduðu góðum sigri

Haukar tóku á móti ÍR í Schenkerhöllinni í kvöld. ÍR átti harma að hefna síðan í seinustu rimmu þessara liða þar sem að Haukar fóru illa með ÍRinga. ÍR mættu einbeittir til leiks og sóttu góðan og sanngjarnan 85-88 sigur þar sem að Haukar reyndu hvað þeir gátu til að koma sterkir tilbaka en slæmur þriðji leikhluti varð þeim að falli.
 
ÍRingar hófu leikinn á stífri vörn og var leikurinn mjög jafn. Sigurður Þór Einarsson bombaði niður tveimur þristum fyrir Hauka og kom þeim í 12-10. Björgvin Hafþór Ríkharðsson svaraði þeim með troðslu. Nigel Moore og Sveinbjörn Claessen settu niður sitt hvorn þristinn og komu ÍR í 14-19. ÍR voru sterkari aðilinn það sem eftir lifði leikhlutans en Haukarnir voru ekki langt undan og unnu ÍR leikhlutann 21-24.
 
Haukur Óskarsson skoraði fyrstu 5 stig fyrir Hauka sem hófu leikhlutann á 9-0 kafla. En Haukur var sjóðandi heitur í fyrri hálfleik og setti hann 14 í honum. ÍRingar voru ekki góðir framan af en komu tilbaka og voru Mattíhas Orri Sigurðarson og Sveinbjörn góðir hjá þeim. Haukar þó yfir heildina betri og staðan í hálfleik 40-37.
 
ÍR jafna í stöðunni 46-46 en Haukar náðu þá fimm stigum gegn engu en Matthías Orri svaraði því með þrist og eftir það tóku Íringar völdin í leikhlutanum. Hjalti Friðriksson breyttist í eldhnött og setti hann 14 stig í leikhlutanum frá öllum vígstöðum. Einnig plataði hann hvern Haukamanninn trekk í trekk með skemmtilegum gabbhreyfingum og uppskar opið skot eða ferð á vítalínuna. Matthías var einnig flottur með 8 stig. ÍR voru miklu betri og fór nánast hvert einasta skot niður hjá þeim enda rústuðu þeir leikhlutanum með 15 stigum, 17-32 og því komnir í vænlega stöðu fyrir fjórða leikhlutann, 57-69.
 
Þrátt fyrir erfiða stöðu neituðu Haukamenn að gefast upp og sóttu þeir hart að ÍRingum en Sveinbjörn svaraði ávallt með mikilvægum körfum og hélt ÍR í góðri forustu. Einnig fiskaði hann óíþróttamannslega villu á Terrence Watson. Davíð Páll Hermannsson gerði það sem hann gat til að halda Haukum inn í leiknum og skoraði hann 6 stig á stuttum tíma. Emil Barja lét svo dæma á sig tæknivillu eftir að hafa kvartað af of miklum ákáfa yfir því að hafa ekki fengið vítaskot að auki eftir að hafa skorað. Sveinbjörn setti niður þrist sm leit út fyrir að gera út um leikinn. Kári Jónsson var þó ekki á því að gefast upp þrátt fyrir að vera 10 stigum undir með minna en 2 mínútur eftir. Hann hamraði niður þrist og átti svo stoðsendingu á Watson sem smellti í þrist líka. Við þetta var fjögurra stiga munur með 29 sekúndur eftir af leiknum. Haukar fóru að senda ÍRinga á vítalínuna og brást þeim ekki bogalistin þar. Kári setti niður annan þrist með rétt rúmar 2 sekúndur til leiks og minnkaði muninn í 85-86 en Matthías Orri kláraði leikinn svellkaldur á línunni og tryggði ÍR 85-88 sigur.
 
Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur hjá ÍR með 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Næstur kom Sveinbjörn Claessen með 21 stig og rétt fyrir aftan hann var Hjalti Friðriksson með 20 stig.
 
Hjá Haukum var Terrence Watson með 24 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar. Þar á eftir kom Haukur Óskarsson með 16 stig.
 
 
 
Mynd/ Axel Finnur 
Fréttir
- Auglýsing -