spot_img
HomeFréttirÍR-ingar kolfelldu Skallana í Seljaskóla

ÍR-ingar kolfelldu Skallana í Seljaskóla

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að um sannkallaðan stórleik var um að ræða í Breiðholtinu í kvöld þar sem ÍR-ingar tóku á mótu Skallagrím frá höfuðstað Vesturlands. Fyrir leikinn voru bæði liðin í fallhættu en ÍR-ingar voru þó betur staddir en Borgfirðingar sem þurftu helst að vinna leikinn með 8 stigum eða fleiri til að halda sér uppi, líkt og tölfræðispekingar karfan.is hafa þegar kveðið á um.
 
Maggi Gunn setti tvö fyrstu stig leiksins af vítalínunni fyrir gestina en Matthías Orri svaraði um hæl fyrir heimamenn. ÍR-ingar virtust þó vera með stemninguna sín megin í byrjun og Ragnar og Trey voru atkvæðamiklir  og komu sínum mönnum í 7 stiga forystu, 11-4, þegar 5 mínútur voru liðnar af leiknum. Heimamenn héldu áfram að vera mun ákveðnari inn á vellinum og Finni Jónssyni þjálfara Skallanna var nóg boðið þegar staðan var orðinn 15-4 og tók leikhlé. Það virtist ekki skila miklum árangri þar sem ÍR-ingar réðu lögum og lofum inn á vellinum og komust í 20-4 eftir frábæra spretti frá Claessen og Trey Hampton. Gestirnir náðu loks að hrista af sér mesta hrollinn í lok leikhlutans en eftir góða spretti frá Daða Berg og Tracy náðu Skallarnir að halda muninum í eins stafa tölu, 25-17.
 
Maggi Gunn hóf annan leikhluta líkt og fyrsta, skilaði niður tveimur vítaskotum og kom stöðunni í 25-19. Þá tók við skelfilegur leikkafli gestanna þar sem þeir hreinlega neituðu að taka fráköst og létu heimamenn hirða hvert sóknarfrákastið á fætur öðru sem skilaði þeim auka sóknum og ódýrum körfum. Fljótlega jókst munurinn upp í 14 stig, 40-26 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Á þessum tímapunkti tóku þeir Trey Hampton og Ragnar Örn Bragason hreinlega yfir leikinn. Ragnar sýndi að hann var tilbúinn í þennan leik og setti tvo góða þrista ásamt því að taka allmörg sóknarfráköst fyrir sína menn. Hampton sýndi takta í háloftunum og tróð yfir hálft Skallagrímsliðið við mikinn fögnuð heimamanna þar sem þeir voru komnir í þægilega forystu, 44-28. Trey endaði svo hálfleikinn á annarri troðslu og heimamenn fóru með 51-33 forskot inn í hálfleikinn gegn alveg andlausum og dofnum Sköllum. 
 
Skallagrímsmenn þurftu heldur betur að spýta í lófana í þriðja leikhluta sem og þeir gerðu með 6 stigum í röð frá Tracy og þrist frá Davíð Ásgeirs. Gestirnir náðu að koma muninum niður í tólf stig, 57-45 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður en lengra komust þeir ekki. Maður leiksins Trey Hampton tók þá málin í sínar hendur og setti 6 stig í röð hinumegin og þar á meðal fjórðu troðslu sína í leiknum til þessa. Það var greinilegt á þessum tímapunkti að heimamenn vildu sigurinn meira í þessum leik enda fóru þeir með þægilegt sextán stiga forskot inn í fjórða leikhluta, 69-53.
 
Því miður fyrir körfuboltaáhangendur varð fjórði leikhluti aldrei nálægt því að vera spennandi þrátt fyrir daufar tilraunir gestanna að komast inn í leikinn aftur. Kristján Pétur kom flottur inn í leikinn í lokafjórðungnum og skilaði góðum stigum þegar á þurfti að halda og greinilegt var að allir leikmenn í liði ÍR voru tilbúnir að skila framlagi til liðsins í þessum mikilvæga leik. Trey hélt áfram að vera skrímsli út leikhlutann og skilaði t.a.m. tveimur sýningartroðslum. ÍR-ingar héldu allt að 20 stiga forystu út leikinn og gestirnir þurftu að játa sig sigraða um miðbik leikhlutans. Lokatölur í kvöld 99-73 og mikill fögnuður braust út meðal heimamanna þegar í ljós kom að þeir verða áfram á meðal þeirra bestu á næsta tímabili.
 
Andleysi bæði í sókn og vörn einkenndi leik gestanna á stórum köflum í kvöld. Lykilmenn Skallagríms voru ískaldir og þess má geta að Páll Axel skoraði sín fyrstu stig í leiknum í fjórða leikhluta sem telst afar dapurt í leik sem þessum. Einnig má nefna að ÍR-ingar náðu 19 sóknarfráköstum í leiknum sem telst varla vera boðlegt í baráttuleik sem þessi leikur hefði átti að verða. 
 
Heimamenn voru aftur á móti vel mótiveraðir í kvöld og sást það frá fyrstu mínútu að þá langaði mun meira í þennan sigur en gestina. Trey Hampton átti skrímslaleik í kvöld og skilaði 31 stigi og 11 fráköstum en hann sýndi einnig ágætan varnarleik. Hann var þó langt frá því að vera einn síns liðs en Ragnar Örn, Sveinbjörn Claesssen og Kristján Pétur voru einnig virkilega góðir í þessum leik sem og allir sem spiluðu í bláum búningi í kvöld.
 
Umfj. ÞÖV 
 
Fréttir
- Auglýsing -