Eftir rétt rúmar þrjár vikur mun deildarbikarkeppnin fara af stað og með því hefst 2020-21 tímabilið. Rúmum mánuði eftir það munu svo Dominos deildir karla og kvenna rúlla af stað.
Liðin eru því allflest komin af stað í undirbúningi sínum, bæði hvað varðar æfingar og aðra hluti. Nú í vikunni bárust Körfunni fréttir af undirbúningi ÍR, en þeir fóru á dögunum saman upp á topp Esjunnar.
Í spjalli við Körfunna sagði þjálfari ÍR, Borche Ilievski, að bæði lið og stjórn félagsins hafi farið á Esjuna saman og að ferðin eigi að hafa verið táknræn. Hafi hún ekki aðeins verið formleg byrjun tímabils þeirra, heldur einnig táknræn í þeim skilningi að þarna hafi liðið og forráðamenn farið saman á toppinn. Sagðist hann ekki í nokkrum vafa að félag sitt væri tilbúið til þess að gera slíkt hið sama á vellinum í vetur. Enn frekar sagði hann sína menn vita vel að þetta yrði ekki auðvelt verkefni, en að hann hefði trú á að þeir væru reiðubúnir að leggja meira á sig en aðrir til þess að ná settu takmarki.
Að lokum vildi Borche koma hugheilum kveðjum áleiðis til allra í hreyfingunni sem lesa má hér fyrir neðan:
“Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að senda baráttukveðjur til allra félaga, leikmanna, stjórnarmanna, körfuknattleikssambandsins og annarra með von um heilbrigði og vel heppnað komandi tímabil. Saman berjumst við gegn ósýnilegum andstæðing (Covid-19) og ég er viss um að í sameiningu getum við unnið”
ÍR leikur sinn fyrsta leik í deildarbikarkeppninni heima gegn fyrstu deildarliði Vestra þann 28. næstkomandi.