spot_img
HomeFréttirÍR í undanúrslit - 84 þristar í loftið

ÍR í undanúrslit – 84 þristar í loftið

Hertz Hellirinn sá 229 stig í kvöld þegar ÍR tryggði sér síðasta sætið í undanúrslitum Poweradebikarkeppninnar í karlaflokki. ÍR skellti þá Keflavík b 139-90 en í liði Keflvíkinga voru kempur á borð við Guðjón Skúlason, Sigurð Ingimundarson og Albert Óskarsson mættar í búning. Fagmenn sem komnir eru af léttasta skeiði og sprækir ÍR-ingar lentu ekki í neinum vandræðum með að vippa sér ofan í bikarskálina góðu sem Falur Harðarson flutti til landsins í eina tíð. Það eru því Grindavík, Tindastóll, Þór Þorlákshöfn og ÍR sem verða í pottinum þegar dregið verður á fimmtudag.
 
 
Menn voru lítið feimnir við að „setja´nn“ í kvöld en 84 þriggja stiga tilraunir millum liðanna varð niðurstaðan. Ekki voru það gestirnir úr Keflavík sem höfðu sig meira í frammi utan við þriggja stiga línuna en létu þó 37 tilraunir í loftið, heimamenn í ÍR gerðu nokk betur og skutu 47 þriggja stiga skotum og settu niður 20 þeirra.
 
Snemma varð ljóst í hvað stefndi, 31-18 að loknum fyrsta leikhluta þar sem tilþrif fyrstu tíu mínútnanna voru í eigu Guðjóns Skúlasonar sem með um 22 sekúndur á skotklukkunni fann sig skyndilega „einn og óvaldaðan“ innan um þrjá varnarmenn ÍR og þjóðráð að vippa sér upp í þrist. Hann vildi ekki niður en þarna sá maður glitta í alla 964 deildarþristana hans Guðjóns og kom hann einum niður í kvöld!
 
Í hálfleik var staðan orðin 69-39 og svo fór að endingu að lokatölur urðu 139-90. Gunnar Einarsson var stigahæstur hjá Keflvíkingum með 23 stig og blés vart úr nös en Nigel Moore gerði 21 stig í liði ÍR. Magnús Þór Gunnarsson spilaði tæpar 15 mínútur með Keflavík b í kvöld en þetta var hans fyrsti leikur síðan hann meiddist á hendi eftir fyrstu umferð í Domino´s deild karla þetta tímabilið.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -