Mikil stemning var því fyrir leiknum á Sauðárkróki og væntanlega um allt land og það var alvöru eftirvæntingarbikarkeppnisandrúmsloft í Síkinu þegar leikurinn hófst. Það tók líka bæði lið smá tíma að ná hrollinum úr sér, sniðskotin voru ekki að detta og það var eins og bæði lið hefðu samþykkt að hafa fyrstu mínútur leiksins framhald af upphituninni. Það var ekki fyrr en vösk sveit Breiðhyltinga var búin að koma sér fyrir í bekkjunum og byrjuð að hvetja sitt lið áfram af miklum sóma þegar leikurinn hófst að alvöru. Vaska stuðningsmannasveitin tókst nefnilega að kveikja í öðrum áhorfendum í húsinu og síðan í kjölfarið í leikmönnum Tindastóls og þá helst Helga Frey og Antoine Proctor sem byrjuðu að sulla niður þriggja stiga körfunum. Tindastólsliðið náði því ágætis forskoti og leiddu allan fyrri hálfleikinn nokkuð örugglega og það var í raun töluvert afrek hjá ÍR-ingum að halda í við fyrstu deildar liðið í hálfleiknum. Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var Tindastólsliðið með 13 stiga forskot 41-28 en með smá viðspyrnu tókst ÍR-ingum að minnka forskotið í 41-35 fyrir pásuna. Pínu vonbrigði fyrir Tindastólsliðið að leiða ekki með meiri mun eftir að hafa verið mun betri liðið mest allan fyrri hálfleikinn.
Seinni hálfleikur var hins annar handleggur. Allt annar jafnvel. Sá vindur í seglin sem ÍR-ingar fengu í lok fyrri hálfleiks hélt áfram að blása í byrjun seinni hálfleiks og á stuttum tíma tókst þeim að jafna og komast yfir og leiddu þegar lokaleikhlutinn hófst 60-56.
Leikurinn í kvöld var alveg þrusu skemmtun og mátti sjá mörg mögnuð tilþrif hjá báðum liðum. Hjá ÍR liðinu voru Matthías Orri og Hjalti Friðrik virkilega góðir og þá kom Ragnar Bragason verulega öflugur af bekknum og var Tindastólsliðinu erfiður ljár í þúfu í fjórða leikhluta. Njarðvíkingurinn Nigel Moore var líka sterkur og sérstaklega þegar ÍR-liðinu vantaði smá neista í sóknina og Sveinbjörn Claessen tók að sér að vera baráttuhundurinn í villuvandræðunum og stóð sig vel í því. Hamaðist í Helga Rafni allan leikinn og það er ekki fyrir alla. Hefur þó líklega hitt betur úr þriggja stiga skotunum.
Tindastólsliðið var ekki að spila sinn besta leik í vetur. Enda fyrsti tapleikurinn. Proctor sýndi mörg góð tilþrif og tók að sér að draga vagninn á köflum en eftir að hafa hitt úr fyrstu tveimur þriggja stiga skotunum þá datt aðeins einn niður í næstu átta skotum. Helgi Freyr byrjaði leikinn líka alveg sjóðandi og augljóslega ekkert þorrablót um helgina þar á bænum en kólnaði í þeim seinni. Pétur Birgisson og Ingvi Rafn Ingvarsson voru sprækir að venju en það er möguleiki að Bárður hafi viljað fá fleiri sig á töfluna frá stóru mönnunum sínum sem voru ekki að hitta nægilega vel alveg undir körfunni.
Þótt að tapið hafi verið súrt fyrir Tindastólstrákana þá mega þeir vera stoltir af sinni framgöngu í bikarkeppninni í vetur. ÍR-ingarnir á hinn bóginn komnir verðskuldað í úrslitaleikinn og get vel við unað að hafa verið fyrsta liðið til að sigra körfuboltaleik á Sauðárkróki á þessu tímabili.



