spot_img
HomeFréttirÍR heldur dauðahaldi í úrvalsdeildarsæti sitt

ÍR heldur dauðahaldi í úrvalsdeildarsæti sitt

ÍR-ingar eru að berjast fyrir tilverurétti sínum í úrvalsdeild og er hver og einn leikur sem eftir er hjá þeim duga-eða-drepast leikir. Þar skiptir heimavöllurinn höfuðmáli og ekki síst þegar góð lið eins og Snæfell mæta í hús.
 
Hellisbúarnir mættu hárbeittir til leiks, án Matthíasar Orra sem tognaði illa á ökkla í Grindavík á dögunum. Hann var í búning en ekki virtist vera þörf á þátttöku hans því ÍR-ingar tóku snemma í 15-7 forystu eftir 5 mínútna leik þar til Ingi Þór, þjálfari Snæfells tók leikhlé. Það sló samt engan veginn Breiðhyltinga út af laginu heldur uxu þeir ásmeginn og bættu í forystuna. ÍR-ingar hlóðu 28 stigum á flata og máttlausa Snæfellinga í 1. hluta sem aðeins svöruðu með 16 stigum sjálfir.
 
ÍR-ingar eru samt þekktir fyrir að byrja vel og slaka svo á, en svo varð einmitt raunin á lokamínútum 2. hluta þegar Snæfell skoraði 7 stig í röð og heimamenn göptu á meðan. ÍR tókst hins vegar að stöðva blæðinguna og loka fyrri hálfleik með 5 stiga mun 46-41.
 
ÍR spilaði flottan bolta í þriðja hluta á meðan Snæfellingar voru hálfráðalausir í sínum aðgerðum. Sóknarleikurinn einkenndist af einstaklingsframtaki og varnarleikurinn stirðbusalegur og hélt engu. Allt þar til í 4. hluta þegar þeir hresstust töluvert og fóru að hitta úr skotum sínum. ÍR að sama skapi lét eftir í vörninni.
 
Þeir hafa verið gjarnir að færa áhorfendum spennandi leiki í Hellinum og var allt útlit fyrir að svo yrði raunin, þegar ÍR-ingar fóru að tapa boltanum trekk í trekk – alls 5 sinnum á síðustu 2 mínútum leiksins. Snæfelli tókst hins vegar ekki að nýta sér þessa gjöf ÍR og lönduðu heimamenn mikilvægum 88-82 sigri fyrir botnbaráttuna. Snæfell hins vegar tapaði þarna dýrmætum stigum í baráttu sinni um þátttökurétt í úrslitakeppninni.
 
Hjá ÍR skiptist stigaskorið mjög jafnt. Alls fjórir leikmenn með yfir 10 stig. Trey Hampton var grimmur í teignum, setti 20 stig og reif niður 12 fráköst (þar af 6 í sókn) auk þess sem hann stal 6 boltum. Honum næstur kom Ragnar Örn Bragason sem setti 17 stig, 3/8 í þristum og stal 3 boltum. Sveinbjörn Claessen sýndi leiðtogahlutverk sitt í verki í leiknum og réðst vægðarlaust á körfuna með góðum árangri. Hann skoraði 16 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 
 
Fátt var um fína drætti hjá Snæfelli. Chris Woods átti þó frábæran leik með 35 stig og 18 fráköst. Austin Bracey setti 13 stig og Sigurður Þorvaldsson bætti við 10.
 
Snæfell missti snemma miðherjann Stefán Karel Torfason út af í meiðsli á öxl en samkvæmt Inga Þór, þjálfara Snæfells fór hann úr axlarlið fyrr í vetur og hefur átt í vandræðum með hann síðan.  Það munaði um minna en ÍR-ingar tóku 12 sóknarfráköst í leiknum.
 
 
Mynd:  Trey Hampton spilaði vel fyrir ÍR í kvöld. (Bára Dröfn)
Fréttir
- Auglýsing -