spot_img
HomeFréttirÍR fékk yfirhalningu í Hafnarfirði

ÍR fékk yfirhalningu í Hafnarfirði

Ef ÍR var í miðjum lífróðri þá var það áralaus bátur í straumlausu vatni því Breiðhyltingar fengu laglega yfirhalningu gegn Haukum í Domino´s deildinni í kvöld. Lokatölur 89-65 í Schenkerhöllinni. Eftir alley-up troðslu ÍR sem kom þeim í 25-26 í fyrri hálfleik gerðist það sem fæstir áttu von á, botninn datt úr leik gestanna og Haukar stungu af. Andris tímabilsins líklega. Fimm í röð hjá Haukum sem í kvöld sportuðu t.d. troðslum frá kempunni Kristni Jónassyni svo fátt eitt sé nefnt!
 
 
Má vera að stórleikur ÍR í botnbaráttunni gegn Skallagrím í næstu umferð hafi verið að trufla Breiðhyltinga og að fjarvera Matthíasar Orra hafi vissulega sín áhrif en frammistaðan í kvöld var afspyrnuslök og Haukar gengu á lagið.
 
ÍR-ingar mættu með 2-3 svæðisvörn til leiks og gerðu einnig fjögur fyrstu stig leiksins. Trey Hampton var klár í slaginn frá fyrstu sekúndu og tók t.d. 8 fráköst á átta fyrstu mínútunum (næstu 23 mínútur tók hann aðeins 3 fráköst!). Vilhjálmur Theodór Jónsson gerði 6 af fyrstu 8 stigum ÍR en heimamenn í Haukum risu fljótt úr rekkju og leiddu 22-16 eftir fyrsta hluta þar sem Francis var skæður á blokkinni með 10 stig fyrir Hauka.
 
Sigurður Þór Einarsson skolaði niður þrist á fyrstu sekúndum annars leikhluta og kom Haukum í 25-16. Hér setti ÍR í lás í vörninni, skipti í maður á mann og Haukar skoruðu ekki stig næstu fimm mínútur! Varnarleikur Hauka var svo sem enn á lífi þó sóknarleikur þeirra væri undir feld en ÍR tókst að komast yfir 25-26 eftir að Ragnar Örn Bragason smellti myndarlegri alley-up sendingu á Hampton sem skilaði sínu.
 
Hafnfirðingum leiddist þessi fimm mínútna eyðimerkurganga og kyntu undir Haukavagninum, vígtennurnar sigu niður úr gómnum og Francis reið fyrstur á vaðið. Haukar settu saman 15-2 sprett og leiddu svo 44-30 í hálfleik. Alex Francis var með 20 stig og 7 fráköst í liði Hauka í hálfleik en Trey Hampton var með 11 stig og 10 fráköst hjá ÍR. Andris þessi viðsnúningur því einhvern veginn bjóst maður við að alley-up fléttan og góð spilamennska ÍR framan af öðrum leikhluta myndi koma þeim á bragðið en svo varð nú aldeilis ekki.
 
Bjarni Magnússon þjálfari ÍR fékk svo dæmt á sig tæknivíti á leið inn í búningsklefa og skv. heimildum Karfan.is var það vegna þess að hann vildi ekki eiga orðastað við dómara leiksins heldur skundaði hann á braut og beint inn í klefa.
 
Síðari hálfleikur hófst því á vítalínunni og Haukar fengu boltann aftur og skoruðu, gerðu reyndar fyrstu sjö stigin í þriðja leikhluta, 51-30, og þar með var björninn hreinlega unninn! ÍR afrekaði að tapa 16 boltum á fyrstu 23 mínútum leiksins og var oftar en ekki refsað í bakið með körfu. Kári Jónsson sýndi lipra takta í Haukaliðinu í kvöld og einn þeirra takta var flautuþristur í þriðja sem fór í spjaldið og ofan í…svona rétt aðeins til að strá salti í sár ÍR-inga. Staðan 73-47 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Fjórði leikhluti var í raun aldrei til umræðu nema tvö atriði sérstaklega, það fyrsta þegar Sæþór Elmar Kristjánsson leikmaður ÍR var rændur ruðningi en hann sýndi þar dirfsku og kastaði sér fyrir Francis-lestina en uppskar villu. Undirritaður væntir þess að dómarar leiksins hringi í Sæþór allir sem einn og biðji hann innilega afsökunar enda mögnuð varnartilþrif…amk séð úr blaðamannastúkunni en þar leynast þeir víst gáfumennin.
 
Hitt var svo að miðherjinn Kristinn kempa Jónasson reyndi „put-back“ troðslu sem vildi ekki niður en gamli seigur lét sér ekki segjast heldur tróð bara strax í næstu sókn og skömmu síðar klístraði hann saman „Euro-dunk-i“. Kristinn með 8 stig í kvöld og 3 fráköst og er mættur aftur á parketið til að hjálpa ungum Haukum í teignum með alla sína sentimetra og reynslu að vopni.
 
Eins og fyrr greinir var um Haukaburst að ræða, 89-65. Francis með 31 stig og 11 fráköst og Emil Barja skartaði sinni fyrstu þrennu á tímabilinu með 11 stig, 15 stoðsendingar og 10 fráköst. Flott framlag úr mörgum áttum hjá Haukum í kvöld sem hafa unnið fimm leiki í röð og þessi sigur var nokkuð fumlaus en framkvæmdur af festu.
 
ÍR skundar nú inn í „líf og dauða leik“ gegn Skallagrím í næstu umferð en Trey Hampton setti 20 stig og tók 11 fráköst hjá ÍR í kvöld. Tapaðir boltar urðu 24 talsins í leiknum og ÍR má illa við því að leikmenn eins og Sveinbjörn Claessen láti slökkva í sér en hr. ÍR var einungis með tvö stig í kvöld íklæddur „overcoat“ úr Barja-tískuvarnarlínunni.
 
 
Mynd – Axel Finnur
Umfjöllun – Jón Björn
 
Kristinn Jónasson – troðvél (Haukar)
 
Bjarni Magnússon – þjálfari ÍR
 
Emil Sigurðarson – aðstoðarþjálfari Hauka
  
Fréttir
- Auglýsing -