spot_img
HomeFréttirÍR er eina félagið sem ég ætla að spila fyrir

ÍR er eina félagið sem ég ætla að spila fyrir

 
Sveinbjörn Claessen hefur gert nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélagið sitt ÍR. Eflaust er mörgum Breiðhyltingum létt við þessi tíðindi en Sveinbjörn er á meðal sterkustu leikmanna þjóðarinnar. Sveinbjörn sagði í samtali við Karfan.is að hann hefði ekki nokkurn áhuga á því að spila fyrir annað félagslið á Íslandi en ÍR.
,,Það sem gerði útslagið var að ÍR er eina félagið sem ég ætla að spila fyrir á Íslandi og ég hef ekki nokkurn áhuga á því að fara annað. Mér líst vel á hlutina hjá félaginu og vil bara vera með mínu liði. Feikimikið starf er framundan og við ætlum okkur að ná settu markmiði og það er að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Ég ætla mér að vera maðurinn sem tekur þátt í þessari uppbyggingu, það er ekkert flóknara en það, ég ætla mér að vera prímusmótor ÍR,“ sagði Sveinbjörn fullur eldmóðs þegar Karfan.is náði tali af kappanum.
 
,,Ég geri mér grein fyrir því að ég verð einn af leiðtogum þessa liðs og ég ætla að standa undir þeirri pressu og þeim kröfum sem á mann verða gerðar. Ég er uppalinn ÍR-ingur og tengist félaginu sterkum böndum,“ sagði Sveinbjörn og hvatti félaga sinn sem nú liggur undir feld til að fylgja fordæmi sínu.
 
,,Ég vona að vinur minn Hreggviður Magnússon fylgi mér að máli því okkur veitir ekki af því að hafa hann í hópnum, ég neita að trúa því að hann vilji fara úr því að vera andlit liðsins í að vera ,,roll-player“ í öðru liði,“ sagði Sveinbjörn sem var frá alla síðustu leiktíð sökum meiðsla en hefur lagt mikið á sig til að ná sér góðum á nýjan leik.
 
,,Endurhæfingin síðustu sex mánuði á eftir að skila sér, þar liggja hundruðir klukkutíma,“ sagði Sveinbjörn og þjálfari hans, Gunnar Sverrisson, var ekki síður sáttur við að einn af dáðustu sonum ÍR skyldi hafa samið við uppeldisfélagið á nýjan leik.
 
,,Ég er virkilega ánægður með það að hann skildi gera nýjan samning við ÍR. Sveinbjörn er ekki bara frábær leikmaður, hann er líka frábær félagi og mikill leiðtogi. Hvernig hann spilaði úr þessari erfiðu stöðu sem hann var kominn í þegar hann meiddist, það er akveg einstakt. Ég held að hann hafi ekki verið í síðra formi þennan vetur eftir meiðslin en aðrir leikmenn sem voru í toppformi í deildinni. Ef þú svo flettir upp á orðinu fyrirmynd í orðabók þá er mynd af Claessen að lyfta lóðum með hækjur. Ég veit að mörg lið vildu fá hann til sín og er það mjög skiljanlegt. Sveinbjörn er ÍR-ingur fram í fingurgóma og með slíkan félagsmann innanborðs er bara gaman að mæta á æfingu.“
 
Ljósmynd/ Sveinbjörn við undirritun nýja samningsins hjá ÍR
 
Fréttir
- Auglýsing -