Eftir að hafa hent boltanum tvisvar frá sér á innan við 30 sekúndum tóku blikar leikhlé til þess að reyna að snúa gangi leiksins við þegar tæplega þrjár mínútur voru eftir og ÍR hafði 7 stiga forskot, 79-86. Blikar voru klaufar að gefa séns á sér með því að gefa gestunum óþarflega mörg sóknarfráköst og það kostaði þá mikið á lokamínútunum. Þegar ein og hálf mínúta var eftir tóku blikar leikhlé en voru þá 8 stigum undir, 82-90. Blikar sendu gestina á línuna seinustu mínútu leiksins í þeirri von að ná að minnka forskotið smá saman. Það gekk þó ekki sem skyldi og því fóru ÍR-ingar með sigur af hólmi, 87-94.
ÍR áfram eftir seiglusigur á Breiðablik
ÍR hafði sigur á Breiðablik í jöfnum leik í Smáranum í dag og hafa þar með tryggt sér sæti í fjögura liða úrslitum Subway bikarsins þetta árið. ÍR hafði forskotið allan leikinn en tókst aldrei að hrista heimamenn almennilega af sér. Munurinn á liðunum fór aldrei yfir 10 stig og var leikurinn því opinn allan tíman.
Breiðablik komst þó aldrei yfir í leiknum þó þeir hefðu tækifæri til þess bæði í þriðja og fjórða leikhluta. Stigahæstur í liði ÍR var Michael Jefferson með 28 stig en næstir voru Nemanja Sovic með 18 stig og Steinar Arason með 15 stig. Hjá Breiðablik var Hjalti Friðriksson atkvæðamestur með 21 stig en þar af voru 19 stig í seinni hálfleik. Næstir á eftir honum voru Jeremy Caldwell með 18 stig og Aðalsteinn Pálsson með 13 stig.
Gestirnir tóku af skarið strax á upphafsmínútum og höfðu yfir 2-10 strax eftir 3 mínútur. Blikar leituðu mikið að Jeremy Caldwell sem var tekinn föstum tökum af Hreggviði Magnússyni. Um leið og Breiðablik fór að sækja á fleiri mönnum batnaði sóknarleikurinn þeirra til muna en það gekk illa hjá þeim að stoppa gestina. ÍR hafði 7 stiga forskot, 7-14 þegar Breiðablik tók sitt fyrsta leikhlé þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður. ÍR-ingar héldu heimamönnum 4-6 stigum frá sér það sem eftir lifði leikhlutans og höfðu yfir 21-25 þegar flautað var til loka hans.
Gestirnir byrjuðu annan leikhluta betur og höfðu náð forskotinu upp í 9 stig þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar, 25-34. Þessum mun héldu þeir þar til Blikar tóku leikhlé þegar leikurinn var tæplega hálfnaður, 29-28. Varnarleikur ÍR var að skila áætluðum árangri sem leiddi til þess að Breiðablik var að taka alltof erfið skot. Þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum tóku ÍR-ingar leikhlé í stöðunni 33-40. Heimamenn hleyptu þeim ekki lengra frá sér en það það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og átti Daníel Guðmundsson seinustu stig leikhlutans á lokaseúndunum. ÍR hafði því 5 stiga forskot í hálfleik, 40-45.
Stigahæstur í hálfleik fyrir ÍR var Michael Jefferson með 11 stig en næstir honum voru Steinar Arason og Nemanja Sovic með 10 stig hver. Hjá Breiðablik var Jeremy Caldwell atkvæðamestur með 14 stig en næstir voru Daníel Guðmundsson með 7 stig og Aðalsteinn Pálsson með 6 stig.
ÍR skoraði fyrstu tvö stig þriðja leikhluta en heimamenn svöruðu með næstu 5 stigum leiksins og voru því komnir aðeins tveimur stigum frá þeim þegar um það bil tvær mínútur voru liðnar, 45-47. Hjalti Friðriksson kom virkilega sterkur inn í seinni hálfleik fyrir blikana og jafnaði metin fyrir heimamenn þegar leikhlutinn var hálfnaður, 53-53. Hann hafði þá skorað 7 af 13 stigum heimamanna í leikhlutanum. Það dugði þó skammt því Michael Jefferson var fljótur að refsa blikum en hann skoraði 8 stig á stuttum tíma og breytti stöðunni í 55-63. Hrafn Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks tók því leikhlé stuttu seinna. Heimamenn minnkuðu muninn smám saman eftir það en hentu svo boltanum klaufalega frá sér á lokasekúndunum og munaði því 6 stigum á liðunum þegar flautað var til loka þriðja leikhluta, 63-69.
Varnarleikur ÍR var sterkur í upphafi fjórða leikhluta og voru heimamenn ítrekað að skjóta neyðarskotum þegar skotklukkan gall. Það virtist þó ekki skila þeim miklu því þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu þeir aðeins 3 stiga forskot, 71-74. Blikar héldu áfram að berjast og þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu þeir jafnað leikinn, 76-76. Gestirnir létu þó forskotið aldrei af hendi og fengu hverja þriggja stiga körfuna á fætur annari úr ótrúlegustu áttum. Það munaði því aftur 5 stigum þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.
Texti: Gísli Ólafsson
Fréttir



