Ingvi Rafn Ingvason skrifaði í kvöld undir samning við Þór Ak um að leika með félaginu á næsta tímabili. Ingvi kom til félagsins fyrir síðasta tímabil en hann er uppalinn hjá Tindastól og kom þaðan. Orðrómur var uppi um að Ingvi væri á heimleið aftur en slegið hefur verið á þær raddir og ætlar Ingvi sér að leika með Akureyringum aftur á næsta tímabili.
Ljóst er að Þór hefur misst sterka leikmenn í þeim Tryggva Snæ og Þröst Leó auk þess sem óvíst er hvort Darrel Lewis leiki körfubolta á næsta tímabili. Hjalti Þór Vilhjálmsson er tekin við stjórnartaumunum á Akureyri og hans býður nú verkefnið að styrkja hópinn og er fyrsti liður í því að endurnýja við Ingva.
Fréttatilkynningu Þórs má finna í heild sinni hér að neðan:
Körfuknattleiksmaðurinn knái Ingvi Rafn Ingvarsson framlengdi í kvöld samning sinn við Þór og gildir samningurinn til eins árs.
Ingvi Rafn, sem er 23 ára bakvörður gekk til liðs við Þór í síðasta tímabil en hann koom frá Tindastóli. Ingvi lék vel með Þór í vetur og lék alls 25 leiki og spilatími hans rúmar 26 mínútur í leik. Ingvi skoraði 9,3 stig að meðaltali í leik, tók 3,7 fráköst í leik og var með 3,4 stoðsendingar.
Þetta eru sannarlega góð tíðindi fyrir klúbbinn að fá að njóta krafta Ingva áfram enda sterkur leikmaður og félagi góður innan vallar sem utan.
Það var Hjálmar Pálsson stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild sem undirritaði samninginn fyrir hönd Þórs.