spot_img
HomeFréttirIngvi: Komum dýrvitlausir í leikinn

Ingvi: Komum dýrvitlausir í leikinn

08:53
{mosimage}

Ingvi Steinn Jóhannsson er hvergi banginn fyrir viðureign Þróttar og Fjölnis í 16 liða úrslitum Lýsingarbikarsins en Ingvi er þjálfari Þróttar í Vogum og á tvö erfið verkefni fyrir höndum með lið sitt. Framundan er bikarleikurinn gegn Fjölni á laugardag kl. 16:00 og þann 10. desember verður Ingvi í miðri bræðrabyltu þegar Einar Árni Jóhannsson, þjálfari toppliðs Breiðabliks og bróðir Ingva, mætir með sína lærisveina í Voga.  

Hvernig líst svo þjálfaranum á leikinn gegn Fjölni í bikarnum? 
Bara þokkalega, þetta er tækifæri fyrir strákana að kljást við úrvalsdeildarlið og sjá hvar þeir standa gagnvart mönnum í deild fyrir ofan. 

Nú er Þróttur á botni 1. deildar, fyrirfram er ekki búist við miklu af liðinu, getið þið strítt Fjölni að einhverju ráði? 
Við höfum ekki náð enn deildarsigri en ég tel búa mun meira í liðinu en staðan í deildinni segir, við komum dýrvitlausir í þennan leik til þess að vinna. 

Hvernig líst þér á aðra leiki í keppninni?  
KR-UMFG er auðvitað aðalleikurinn og nánast ómögulegt að spá um úrslit. Stjarnan-Njarðvík er ekkert annað en skyldusigur hjá Njarðvík og sömuleiðis hjá Keflavík gegn Tindastól.  

Hvernig líst þér svo á að mæta stóra bróður skömmu eftir bikarleik? 
Það verður stórskemmtilegt, skemmir ekki fyrir að þeir létu kanann fara rétt fyrir þann leik. Við stefnum á fyrsta deildarsigurinn þar. Fínt að fara í jólin með tvo sigra.

Þróttur Vogum komu upp í 1. deild karla fyrir þessa leiktíð úr 2. deild en þeir höfðu sigur í 2. deild í fyrra eftir úrslitaleik gegn Reyni Sandgerði.  

Mynd: Jón Björn ÓlafssonGrétar Hermannsson með skot að körfu í leik gegn Reyni fyrr á þessari leiktíð. Grétar er hægri hönd Ingva í liði Þróttar en báðir slitu þeir flestum sínum körfuboltaskópörum á parketinu í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Fréttir
- Auglýsing -