Ívar Benediktsson blaðamaður Morgunblaðisins birtir grein á forsíðu íþróttablaðsins í dag undir þessari fyrirsögn þar sem farið er nánar ofan í saumana á málum Hauka sem komu upp á yfirborðið í gær.
Í fréttinni segir að bæði Ingvari Guðjónssyni og Andra Þór Kristinssyni hafi verið sagt upp störfum hjá Haukum síðastliðið miðvikudagskvöld. Rúmum sólarhring síðar hafi Ingvar verið endurráðinn með Henning Henningsson sér til aðstoðar. Stytt útgáfa fréttarinnnar er á mbl.is en hana má svo nálgast í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins.
Þá eins og Körfuboltakvöld tilkynnti í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í gær var Chelsie Schweers látin fara frá félaginu og fengu þau tíðindi staðfest síðar um kvöldið.
Kjartan Freyr Ásmundsson formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka segir einnig við Morgunblaðið í morgun að samstaða sé innan stjórnar deildarinnar um að fara í breytingarnar. Andri Þór tjáir Morgunblaðinu einnig að svo virðist sem hugsanlegir eftirmenn hans og Ingvars hafi ekki viljað starfið sem leiddi til þess að rætt var við þá báða á nýjan leik.
Útkoman úr þeim viðræðum er ljós því Andri Þór er farinn frá félaginu, Ingvar er kominn með skýrt umboð sem aðalþjálfari liðsins sem hlýtur þá að þýða að Helena Sverrisdóttir sem var aðalþjálfari í þriggja þjálfara teymi sé nú orðin aðstoðarþjálfari ásamt Henning Frey Henningssyni.
Í gær ræddi Karfan.is við Andra Þór en þar kom m.a. fram að hann teldi alla atburðarás málsins skrautlega:
„Ég get ekki sagt að ég sé reiður né sár enda er ég mjög sáttur með þau sambönd sem ég myndaði hjá Haukum. Ég tel mig koma nokkuð vel út úr þessu en ég er undrandi á þessum aðgerðum á þessum tímapunkti, atburðarásin er skrautleg að mínu mati,“ sagði Andri.
Risavaxinn leikur er framundan hjá Haukum þann 8. mars næstkomandi en þá mætir liðið Snæfell í Domino´s-deild kvenna en liðin berjast hart um deildarmeistaratitilinn og hafa í raun gert alla leiktíðina.
Mynd/ Bára Dröfn – Allnokkrir sem koma við sögu málsins eru á þessari mynd en lengst til vinstri er Chelsie Schweers nr. 12, og þjálfararnir á bekknum þeir Ingvar og Andri.



