spot_img
HomeFréttirIngibjörg: Nú verður maður bara gráðugari

Ingibjörg: Nú verður maður bara gráðugari

 
,,Það var bara komið að þessu, við þurftum bara að vinna, gerðum það og þetta var bara geðveikt,“ sagði Ingibjörg Jakobsdóttir leikmaður Keflavíkur í sigurvímu eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í kvöld eftir sigur á Njarðvík, 61-51 í Toyota-höllinni.
,,Við spiluðum góða vörn og mættum tilbúnar í leikinn svo þetta gekk allt upp. Við erum komin hingað í úrslit og þá snýst þetta um vörnina, maður vinnur ekki titla á sókninni og vörnin skiptir öllu sem gerir þetta oft ekkert fallegt,“ sagði Ingibjörg sem gerði 14 stig fyrir Keflavík í kvöld og var heit utan við þriggja stiga línuna.
 
Í sumar skipti Ingibjörg úr Grindavík yfir í Keflavík og verður Íslandsmeistari með nýja félaginu í fyrstu tilraun. ,,Þetta hefði ekki getað orðið betra og ég sé ekki á eftir þessari ákvörðun minni og myndi ekki skipta á þessu fyrir nokkurt annað,“ sagði Ingibjörg sem fagnaði í kvöld sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í meistaraflokki, ekki þó þeim síðasta, er það?
 
,,Nei, alls ekki! Nú verður maður bara gráðugari og gráðugari þegar maður hefur kynnst því hversu gaman þetta er,“ sagði Ingibjörg og þó Keflavík hafi tekist á við nokkur áföll á tímabilinu eins og að missa Jacquline Adamshick í meiðsli þá sagði Ingibjörg það ekki hafa verið eitthvað sem hafi slegið Keflavík neitt út af laginu.
 
,,Lisa sem kom inn fyrir Jackie er frábær leikmaður, var fljót að aðlagast og hefur þetta í sér,“ en bjóst Ingibjörg við því að mæta Njarðvík í úrslitum? Var hún ekki eins og flestir búnir að gera ráð fyrir því að mæta Hamri?
 
,,Ég hélt við myndum mæta Hamri en eftir fjórða leikinn í þeirri seríu fór ég að hallast að Njarðvík enda eru þær drullugóðar í körfu,“ sagði Ingibjörg létt í bragði en það er ljóst að Njarðvíkingar eru farnir að banka og komnir með fótinn innfyrir í klúbb bestu liða landsins. ,,Þær eru vissulega farnar að banka á dyrnar en eru ekki með lykilinn,“ sagði Ingibjörg Jakobsdóttir sæl eftir sigurinn í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -