Hólmarar gerðu góða ferð til Reykjavíkur í kvöld þegar Snæfell lagði nýliða Vals í Vodafonehöllinni. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells var stoltur af sínum liðsmönnum sem voru aðeins níu talsins í kvöld.
,,Við erum mjög stolt af sjálfum okkur og sáttar við að byrja leiktíðina á sigri, það er alltaf mikill spenningur fyrir fyrsta leik og við eins og aðrir búin að bíða lengi eftir þessu," sagði Ingi Þór sem telur að þrátt fyrir sigurinn eigi Snæfellsliðið mikið inni.
,,Við erum svolítið búin að berja af okkur meiðslahamarinn, vorum bara níu á skýrslu í kvöld með einn leikmann á leið í aðgerð svo þetta var virkilega fínt. Þrátt fyrir þetta finnst mér liðið eiga töluvert inni og var erlendi leikmaðurinn okkar bara á sínu pari að mínu mati."
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson: Ingi í Vodafonehöllinni í kvöld.