spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Mætum grimmari til leiks á fimmtudag

Ingi Þór: Mætum grimmari til leiks á fimmtudag

 
,,Þetta var ekki planið okkar, við ætluðum okkur að setja allt sem við áttum í þennan leik og klára en það vantaði aðeins upp á þetta í dag. Við bara nýttum ekki tækifærið til að skilja Keflavík eftir í byrjun leiks,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells í samtali við Karfan.is eftir 73-82 sigur Keflavíkur í Stykkishólmi í kvöld. Staðan í einvíginu er því 2-2 og oddaleikur staðreynd sem fram fer í Keflavík á fimmtudag.
,,Það er mjög skrýtið að hitta svona illa á heimavelli, við höfum lent hérna á leikjum þar sem við hittum úr öllu en í dag þurftum við toppleik en fengum ekki framlag frá öllum leikmönnum liðsins,“ sagði Ingi en Hólmarar hafa jafnan kvittað vel fyrir tapleiki sína í úrslitakeppninni.
 
,,Ég hef fulla trú á því að svo verði einnig í oddaleiknum, við förum bara yfir málin núna og mætum grimmari til leiks á fimmtudag. Bæði lið eiga eftir að mæta mjög grimm á fimmtudag og sá leikur verður bara járn í járn,“ sagði Ingi og verða þá fleiri leikmenn í liðunum sem fara blóðgaðir af velli? Þeir voru þrír talsins í kvöld.
 
,,Mér fannst þetta kannski full mikið og full mikil harka í leiknum,“ sagði Ingi en hvað þurfa Hólmarar að endurskoða hjá sér fyrir fimmtudaginn?
 
,,Það er kannski að koma aðeins afslappaðri inn í sóknarleikinn, við vorum kannski full stífir í kvöld og vorum að flýta okkur aðeins of mikið. Við fengum góð ,,look“ á körfuna í kvöld en vorum ekki að setja eitt né neitt. Það munar um að menn sem hafa verið að skila fínu framlagi voru ekki að skila neinu í dag,“ sagði Ingi en hvernig mun Snæfellsliðið verja næstu tveimur dögum fyrir oddaleikinn?
 
,,Morgundagurinn fer bara í að jafna sig enda menn þreyttir, þá þeir sem spiluðu mest í dag. Við förum svo yfir málin og æfum á miðvikudag og mætum ferskir á fimmtudag.“
 
Fréttir
- Auglýsing -