15:49
{mosimage}
(Ingi Þór með Snæfellsbúninginn ásamt Hjörleifi Kr. Hjörleifssyni formanni Snæfells)
Snæfell hefur ráðið Inga Þór Steinþórsson sem þjálfara meistaraflokka karla- og kvenna. Samningurinn er til þriggja ára en Ingi Þór mun einnig verða yfirþjálfari yngri flokka. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í Stykkishólmi í dag. Ingi Þór sagði í samtali við Karfan.is að hann hefði fundið ákveðna þörf fyrir að breyta til en hann hefur þjálfað hjá KR í alls 19 ár en sagði það vissulega erfitt að kveðja Vesturbæinn.
,,Ég samdi við Snæfell til þriggja ára,“ sagði Ingi Þór sem flytjast mun búferlum úr Reykjavík Vestur í Stykkishólm með konu sína og þrjú börn. ,,Þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem ég flyt austur fyrir læk,“ sagði Ingi Þór léttur í bragði en hann á að baki 19 ára þjálfaraferil hjá KR þar sem hann hefur unnið nánast allt sem hægt er að vinna í íslenska boltanum.
,,Þetta er í fyrsta sinn sem ég verð aðalþjálfari kvennaliðs,“ sagði Ingi Þór sem reyndar var aðstoðarmaður Óskars Kristjánssonar þegar Óskar var landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna.
{mosimage}
,,Ég fann bara ákveðna þörf fyrir því að breyta til. Mér leist strax vel á þetta þegar Snæfellingar höfðu samband en það verður erfitt að kveðja KR því þar er mikið af góðu fólki en ég hlakka til að fara í Hólminn, hann heillar,“ sagði Ingi og vísaði í frægasta lag Stykkishólms: Hólmurinn heillar.
Ingi Þór Steinþórsson steig sín fyrstu þjálfaraskref árið 1988 þegar hann þjálfaði minnibolta hjá KR. Síðan þá hefur hann unnið fjölda titla hér á Íslandi og m.a. stýrði hann KR til Íslandsmeistaratitils árið 2000 og aftur í ár sem aðstoðarþjálfari Benedikts Guðmundssonar. Þá er Ingi Þór einnig reynslumikill landsliðsþjálfari yngri landsliða.
Myndir: Eyþór Benediktsson
{mosimage}
{mosimage}
(Ingi ásamt formönnum mfl. karla og kvenna, þeim Gunnari Svanlaugssyni og Sæþóri Þorbergssyni)



