Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var afar ósáttur við hvernig tekið var á lokaandartökum leiks sinna manna gegn Þór í Þorlákshöfn í Iceland Express deild karla í gærkvöldi. Vísir.is ræddi við Inga Þór eftir leik.
Þór tryggði sér sigurinn með flautukörfu og segir Ingi Þór að báðir dómarar hafi ekki verið að horfa á leikinn.
„Ég er ósáttur við lokin á leiknum. Annar dómarinn er að taka boltann inn en hinn er á ritaraborðinu, ég var ekki tilbúinn. Ég sá ekki hvað gerðist því ég var að fylgjast með hinum dómaranum á ritaraborðinu," sagði Ingi Þór.
„Ég hef aldrei séð annað eins," bætti hann við en Marko Latvinovic leikmaður Þórs gerði sigurstig leiksins þegar 1 sekúnda var til leiksloka.