spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Býst við blóðugri baráttu í kvöld

Ingi Þór: Býst við blóðugri baráttu í kvöld

 
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells veit hvað hann syngur þegar rætt er um einvígi KR og Stjörnunnar enda KR-ingur að upplagi og tiltölulega nýbúinn að mæta Stjörnunni í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar. Við fengum Inga til að rýna í leik kvöldsins og skeggræða þetta úrslitaeinvígi við okkur.
,,Ég býst við blóðugri baráttu í kvöld, ég held að allir séu meðvitaðir um að þetta verði gríðarleg barátta enda eiga menn að selja sig dýrt á þessum tímapunkti og verður forvitnilegt að fylgjast með þessum leik,“ sagði Ingi Þór sem á það sammerkt með kollegum sínum Hrafni Kristjánssyni og Teiti Örlygssyni að hamast annað veifið í dómurum leiksins, eins og þjálfurum er tamt.
 
,,Dómgæslan í þessu einvígi hefur verið sveiflukennd, mér finnst ekki hafa hallað á einn né neinn en oft og tíðum eru Stjörnumenn klaufar. Þeir eiga að vera fastir fyrir, ekki teygja sig í boltann. Auðvitað er það ekkert auðvelt ,,djobb“ að dæma í svona seríu en dómararnir gera þetta eins vel og þeir geta eins og aðrir sem koma að þessum leikjum,“ sagði Ingi sem viðurkenndi að sjálfur félli hann í þá gryfju að hamast í dómurum.
 
,,Í leik eitt var mikið dæmt, hann var bara þannig, átökin voru meiri í leik tvö og í leik þrjú voru margir vendipunktar en þá keyrði KR liðið mjög hratt og spilaði á veikleika Stjörnunnar og Garðbæingar náðu einfaldlega ekki að stoppa KR þegar þeir sóttu sterkt á körfuna. Annars held ég bara að bæði lið ættu að einbeita sér að einhverju allt öðru en dómurunum, ég þekki það af eigin raun að fókusinn er farinn þegar maður fer í dómarana en þetta er bara partur af þessu,“ sagði Ingi og við færðum okkur út í tæknilegri atriði.
 
,,Það tókst á köflum hjá Keflavík að spila svæðisvörn gegn KR en Stjarnan telur sig hafa það vaska sveit að þess gerist ekki þörf í þessu einvígi. Þeir hafa samt farið stuttlega í svæðisafbrigði en KR leysti t.d. vel úr svæði Keflvíkinga á endanum. Sama hvað raular og tautar þá verða Teitur og félagar bara að gera það sem til þarf í kvöld, ef það er svæðisvörn þá verða þeir bara að gera það. Mér finnst leikurinn í kvöld samt snúast um hvað Stjarnan ætli að gera til að stoppa KR. KR mun gera sitt og koma sér í sinn leik eins fljótt og þeir geta og fara í það að stjórna leiknum. Ef Stjarnan getur sett upp sinn leik, hægt á þessu, þá eiga þeir möguleika en þeir eiga ekki séns ef KR kemst í sinn takt,“ sagði Ingi en á leiktíðinni hefur mikið verið rætt um dýptina í KR-liðinu, hvernig blasir sú staðreynd við Inga að Stjörnubekkurinn sé að bjóða upp á veglegra framlag en KR-bekkurinn í fyrstu þremur leikjunum?
 
,,Þetta riðlast vitaskuld þegar Hreggviður fer í byrjunarlið KR á meðan Fannar hvílir vegna meiðsla. Fannar Helga hefur svo verið að koma inn af bekknum hjá Stjörnunni og þessi mynd er kannski aðeins skökk í augnablikinu. Bæði lið eru með 7 afar sterka leikmenn en ég tel KR hafa vinninginn þegar farið er dýpra á bekkinn. Þessi staðreynd segir manni samt hversu sterkt byrjunarlið KR er.“
 
Áhorfendur á leikjum í úrslitaseríunni hafa verið til umræðu en mörgum hefur fundist ábótavant með mætingu stuðningsmanna liðanna á leikina, af hverju er ekki sardínudósastemmning á öllum úrslitaleikjunum?
 
,,Ég held að stór partur af körfuknattleiksáhugafólki hafi litið á einvígi KR og Keflavíkur sem hálfgert úrslitaeinvígi. Það á samt ekki að skipta neinu máli hverjir leika til úrslita, það á alltaf að vera fullt hús. Ég fór á leik tvö í Garðabæ og var bara hissa á því hve mikið pláss var eftir í húsinu þegar leikurinn hófst. Það vantaði líka stemmninguna. Í kvöld vil ég að fólk fari raddlaust út úr Ásgarði enda skiptir stuðningurinn við liðin öllu máli. Fólk á vart að komast að í húsinu þegar leikur hefst og ég hef trú á því að þannig verði þetta í kvöld, bæði KR og Stjarnan mæti með sína 1000 manns í húsið.“
 
Hver hefur komið þér mest á óvart í einvíginu?
,,Mér finnst Daníel Guðmundsson hafa verið sprækur, hann er búinn að vera virkilega traustur í úrslitakeppninni. Annars samgleðst ég Brynjari Þór sem hefur verið að spila vel en það kemur mér ekki á óvart hversu vel hann hefur spilað. Það sem kemur mér helst á óvart eru sveiflurnar í leikjunum, áhlaupin eru stærri og meiri og í síðasta leik var m.a. boðið upp á 33 stiga sveiflu, það er of mikið í úrslitaeinvígi.“
 
Við slepptum ekki Inga úr þessum valsi án þess að leggja niður spá fyrir kvöldið:
,,Ég held að KR vinni þetta, þeir eru sterkari en ég vona bara að þetta verði skemmtilegur leikur til síðustu sekúndu, það væri sko ekkert að því að fá oddaleik en ég býst við KR sigri.“
 
Mynd/ [email protected] Ingi Þór með félaga sínum Benedikt Guðmundssyni á leik tvö í Ásgarði.
 
Fréttir
- Auglýsing -