spot_img
HomeFréttirIngi: Stemmningin og lætin í anda úrslitakeppninnar

Ingi: Stemmningin og lætin í anda úrslitakeppninnar

Snæfell og Tindastóll buðu upp á mikinn slag í Stykkishólmi í kvöld þar sem heimamenn í Hólminum höfðu að lokum sigur og sitja nú öruggir í 6. sæti deildarinnar með fjögurra stiga forskot á Tindastól. Karfan.is heyrði í Inga Þór þjálfara Snæfells eftir leik.
"Ég er mjög sáttur við sigurinn þar sem að Tindastólsmenn sóttu hart að okkur og náðu fimm stiga forystu hérna um miðjan fjórða leikhlutan.  Við skiptum um vörn og fengum tvær stórar þriggja stigakörfur frá Sveini Arnari og Marquis sem lék frábærlega fyrir okkur í kvöld.  Ég er alveg til í að hafa hann svona í úrslitakeppninni, megaflottur hérna í kvöld.  Varnarleikur okkar síðustu fimm mínúturnar gerði útslagið og liðið í heild að spila ágætlega en við eigum mikið inni, spiluðum mun betur gegn Grindavík þar sem fleiri voru að gera hlutina fyrir okkur.  Ég er mjög stoltur af liðinu að rísa upp eftir að hafa leitt leikinn og hikstað um miðjan síðari hálfleik og klára dæmið. Sigurinn er okkur mikilvægur því nú förum við ekki neðar en sjötta sætið og eigum tölfræðilega möguleika á 5. sætinu þó svo að ég sjái það varla gerast. Stemmningin og lætin í leiknum voru svona í anda úrslitakeppninnar, mikið undir og það er gott að klára svona leiki, við erum að undirbúa okkur andlega og líkamlega fyrir átökin framundan, en ætlum að klára Valsara í síðustu umferð til að fara með góða strauma inn í úrslitakeppnina."
 
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson
  
Fréttir
- Auglýsing -