Keflavík tekur á móti Snæfell í fyrstu viðureign liðanna í fyrstu umferð í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslitin. Karfan.is ræddi þjálfara liðanna fyrir leik kvöldsins þá Inga Þór Steinþórsson og Jón Halldór Eðvaldsson.
Ingi Þór Steinþórsson: Snæfell
Stelpurnar eru ánægðar með að hafa náð þessum árangri og við ætlum að njóta þess í botn að vera í úrslitakeppninni. Við erum ekki að leggja af stað til Keflavíkur til að leggjast niður. Við vitum að Keflvíkingar koma dýrvitlausir í leikinn því þær þekkja úrslitakeppnina og vita að það má ekki vanmeta einn eða neinn í þessari keppni.
Staðan er óbreytt á hópnum okkar og Berglind Gunnarsdóttir er enn meidd og kemur ekki inn í dæmið fyrr en á næstu leiktíð. Hún hefur verið mjög dugleg í endurhæfingunni og spennandi að sjá hvernig hún mun koma undan sumri.
Annars er veðrið þannig að við eigum ekki von á mörgum úr Hólminum á þennan leik en það eru t.d. margir að fara á Nettómótið og kannski mæta einhverjir úr þeim hópi til að styðja við bakið á okkur.
Jón Halldór Eðvaldsson: Keflavík
Það er ekkert gefins í lífinu, það er bara þannig og Snæfell er með fínt lið og það hefur verið stígandi í þeim. Ef við spilum ekki af 100% getu þá töpum við. Keflavík hefur ekki efni á því að vanmeta nokkurn skapaðan hlut því við t.d. töpuðum gegn Val í vetur sem eru nú að falla um deild þannig að við vanmetum engan.
Staðan á hópnum er ágæt, ef þú ert í búning þá ertu klár í svona leik. Ingi Þór er gríðarlega fær þjálfari með mikla reynslu þó svo hann sé ekki gamall. Hann hefur unnið mikið af leikjum og titlum en ég er svo skrýtinn að ég pæli ekki mjög mikið í þeim sem ég er að fara að spila við. Ég hef samt kynnt mér Snæfell aðeins og þær spila 2-3 svæðisvörn og maður á mann vörn og við höfum sóknarkefi við báðum vörnum.
Keflavík-Snæfell
Leikur 1
Í kvöld kl. 19:15
Toyota-Höllin í Reykjanesbæ




