spot_img
HomeFréttirIndiana Pacers semja við Andrew Bynum

Indiana Pacers semja við Andrew Bynum

Vandræðagemsinn og letiblóðið Andrew Bynum hefur loks fundið heimili… í það minnsta út tímabilið ef almættið leyfir. Indiana Pacers ákváðu í dag að skjóta yfir hann húsaskjóli auk þess að greiða honum $1 milljón fyrir. 
 
Bynum spilaði 26 leiki fyrir Cleveland Cavaliers fyrir áramót en Cavs hentu honum út í kuldann eftir erfiða sambúð. Þar áður var hann á leikmannaskrá hjá Philadelphia 76ers en lék ekki einn leik fyrir þá vegna hnjámeiðsla. Þau meiðsli heyra síður en svo sögunni til og létu hann engan veginn óáreittan meðan hann lék með Cavs.
 
Allir sem hafa fylgst með NBA undanfarin ár vita hvers drengurinn var megnugur en í dag er hann tvíeggja sverð. Hann gæti gefið Indiana kost á að halda hæðinni í teignum á meðan Roy Hibbert hvílir, en það er eini veiki bletturinn í varnarleik Pacers. Hann gæti miðlað dýrmætri reynslu úr úrslitakeppni og þeim úrslitaviðureignum sem hann spilaði í fyrir Lakers, til leikmanna Pacers. Hver veit nema hann nenni bara að spila körfubolta allt í einu og þá er allt galopið fyrir Indiana liðið. Á hinn bóginn gæti hann verið 50 megatonna kjarnorkusprengja inn í liðsanda og leiðheild Pacers liðsins. Sögusagnir af hegðun hans hjá Cavs eru ekki til fyrirmyndar og hann er þekktur fyrir að setja sjálfan sig í forgang á undan liðinu.
 
Leikmenn Pacers virðast samt sem áður átta sig á áhættunni sem þessu fylgir en kostirnir gætu mögulega vegið út gallana. Sögusagnir eru einnig á kreiki að Pacers hafi nappað upp Bynum til að tryggja það að Heat gætu það ekki, en Larry Bird blés á þær. Bird er samt eldri en tvævetur í þessum bransa og annálaður bragðarefur, innan sem utanvallar.
Fréttir
- Auglýsing -