Fyrirskipun NBA deildarinnar fyrir gærdaginn var skýr: Koma Indiana með öllum mögulegum ráðum í sjötta leikinn.
LeBron James fékk að kenna á því hjá dómurum leiksins og spilaði lítið í leiknum eða aðeins 22 mínútur vegna villuvandræða. LeBron skaut 2/10 í leiknum og endaði með 7 stig. Lítið framlag í tölfræðinni en hann hvatti sína menn ákaft áfram af bekknum.
Aukaleikarar Miami stigu upp, eins og Rashard Lewis sem var að byrja sinn annan leik í röð og svo Ray Allen sem var solid í leiknum.
Hjá Indiana var fátt um fína drætti. Spiluðu vel í fyrsta hluta, hræðilega í öðrum og svo fór Paul George í gang.
31 stig frá PG í seinni hálfleik, 5/10 í þristum og flestir þeirra í lok fjórða hluta þegar mest á reyndi, dugði til að draga Pacers liðið yfir línuna. Roy Hibbert var hálfhlægilegur inni á vellinum, eyddi mestum tíma leiksins á bakinu eða afturendanum og í hvert skipti sem hann datt fannst manni eins og hann væri bókstaflega að fara að drepast. Þetta er eins og að sjá háaldraðan mann detta í gólfið. Hann tók þó 13 fráköst og þar af 6 í sókn.
Lance Stephenson spilaði fína vörn á LeBron, kleip hann og fíflaðist í honum en framlag hans í sókn var dapurt.
Indiana Pacers er í bullandi vandræðum. Þeir einfaldlega geta ekki endurtekið frammistöðuna í leik 1 á móti Heat. Miami liðið er bara betra. Betur þjálfað og betur skipulagt. Maður veltir því fyrir sér núna hvort allar þessar hræringar í leikmannahópinum í vetur hafi gert eitthvað gagn eða jafnvel eyðilagt meira en það lagaði.
Þessi sería er búin og var það eiginlega eftir leik 2. Indiana hafa ekki sýnt neitt sem einkenni meistaralið, að undanskildum leik 1 í þessari seríu. Þetta er bara formsatriði fyrir Miami og verður klárað í Florida á föstudaginn.