spot_img
HomeFréttirIceland Express deild kvenna hefst í kvöld

Iceland Express deild kvenna hefst í kvöld

09:00
{mosimage}

(Fulltrúar kvennaliðanna á blaðamannafundi KKÍ á mánudag)

Iceland Express deild kvenna hefst í kvöld á heilli umferð og fara allir leikirnir fram kl. 19:15. Íslandsmeistarar Keflavíkur hefja titilvörn sína í Toyotahöllinni þegar Haukar koma í heimsókn en viðureignir þessara liða hafa verið mögnuð skemmtun undanfarin ár og má búast við mikilli baráttu í Keflavík í kvöld.

Bikarmeistarar Grindavíkur fá silfurlið KR í heimsókn í Röstina en þessi lið mættust í undanúrslitum í fyrra þar sem nýliðar KR sendu Grindvíkinga í sumarfrí.

Fjölniskonur fá Val í heimsókn og verður fróðlegt að sjá hvernig Valskonum tekst að manna liðið sitt í þetta ár en á leikmannalista liðsins vantaði ekki kanónurnar þegar tímaritið Karfan 2008-2009 kom út. Þar mátti m.a. sjá nöfn Helgu Jónasardóttur og Hönnu B. Kjartansdóttur en með þær tvær og Signýju Hermannsdóttur í teignum er komið saman hávaxnasta lið deildarinnar.

Nýliðar Snæfells taka sín fyrstu skref í úrvalsdeild í Hveragerði þegar þær mæta Hamri. Snæfellingar tefla fram bandaríska leikmanninum Detru Ashley en Hamar hefur LaKiste Barkus og Juliu Demirer. Barkus þekkja flestir en hún lék fyrst með Keflavík áður en hún gekk til liðs við Hamar.

Það verður sem sagt í mörg horn að líta í kvennaboltanum í kvöld og því ekki úr vegi að skella sér á völlinn!

Karfan.is mun síðan í dag birta hægt og bítandi spá sína um Iceland Express deild kvenna og með hverju liði mun fylgja stutt umsögn ásamt spáðu sæti í deildinni.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -