spot_img
HomeFréttirIceland Express deild karla hefst í kvöld

Iceland Express deild karla hefst í kvöld

06:00
{mosimage}

(Fulltrúar liðanna í Iceland Express deild karla)

Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki hefst í kvöld þegar Iceland Express deildin fer af stað. Þrír leikir eru á dagskránni og hefjast þeir allir kl. 19:15 en opnunarleikur mótsins er viðureign FSu og Njarðvíkinga og fer leikurinn fram á Selfossi. Í Grindavík koma Stjörnumenn í heimsókn og KR tekur á móti erkifjendum sínum í ÍR í DHL-Höllinni.
 

Fyrstu umferðinni lýkur svo annað kvöld þegar Keflavík tekur á móti Þór Akureyri í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ, nýliðar Breiðabliks fá Skallagrím í heimsókn og Snæfell tekur á móti Tindastól í Stykkishólmi. Leikirnir hefjast einnig kl. 19:15 annað kvöld.

FSu eru nýliðar í deildinni og mæta einu sigursælasta liði landsins í kvöld en nýliðunum til lukku verða þeir á heimavelli. FSu hefur nokkurnveginn haldið svipuðum leikmannahóp en miklar breytingar hafa verið hjá Njarðvíkingum allt frá síðustu leiktíð og því fróðlegt að sjá hvernig grænum hefur tekist að ná púslinu saman.

Grindvíkingar eru með feykilega sterkan hóp í vetur og taka á móti Stjörnunni með þá Justin Shouse og Jovan í broddi fylkingar. Grindavík verður með öflugasta sóknarpar landsins í þeim Brenton Birmingham og Páli Axeli Vilbergssyni svo Garðbæingar mega ekki gleyma vörninni heima.

Flest spjót beinast nú að KR-ingum og telja flestir að röndóttir verði Íslandsmeistarar þetta árið en engu að síður er um ,,derbyslag“ að ræða þegar ÍR mætir í DHL-Höllina í kvöld og þessir leikir eru ávallt ávísun á blóð, svita og tár.

Iceland Express deild kvenna hófst í gær með miklum myndarskap svo það er ekki úr vegi að óska körfuknattleiksunnendum góðrar vertíðar og um leið minna á að í dag, rétt eins og í gær, mun Karfan.is mjatla inn sinni spá með smávægilegri umsögn um hvert lið.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -