spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÍA þrautinni þyngri fyrir Þór

ÍA þrautinni þyngri fyrir Þór

Akurnesingar í ÍA tóku í kvöld á móti Þórsörum frá Akureyri.  Liðin sátu fyrir leikinn í 7. og 8. sæti deildarinnar jöfn að stigum en bæði lið voru með 2 sigra og 4 töp í fyrstu 6 umferðunum. Þórsarar voru í leit að sínum fyrsta útisigri á tímabilinu og um leið að ná að tengja tvo sigra á meðan ÍA leitaðist eftir að snúa við hrinu tveggja tapleikja í röð.

Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið voru nokkuð passív í sínum aðgerðum og spiluðu frekar einfaldan körfubolta. Heimamönnum gekk betur að koma boltanum ofan í körfuna og leiddu mest allan leikinn.  Þórsarar voru duglegir að koma sér á vítalínuna en vítanýting þeirra, sérstaklega í fyrri hálfleik, var afleidd og nutu heimamenn góðs af því og leiddu meira og minna frá miðjum fyrsta leikhluta þar til í byrjun þess fjórða.  Liðin skiptust á að leiða í fyrrihluta fjórða leikhluta, heimamenn voru komnir í villu vandræði og þurftu að rótera liði sínu meira en til stóð.  Það kom þó ekki að sök því eftir æsispennandi lokamínútur leiksins lönduðu heimamenn mikilvægum 85-81 sigri.

Hjá ÍA var Þórður Freyr Jónsson stigahæstur með 24 stig en hann hitti 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og tvö af þeim komu á virkilega mikilvægum tíma fyrir heimamenn.  Næstur honum í stigaskori hjá ÍA var Aamondae Colemann með 23 stig auk þess að taka 15 fráköst.


Hjá Þór, og í leiknum, var Harrison Butler stigahæstur með 25 stig auk þess að taka 10 fráköst en á hæla honum komu Reynir Róbertsson með 20 stig og Jason Gigliotti einnig með 20 stig og 10 fráköst.

Gaman að segja frá því að:

-bæði lið tóku 66 skot í leiknum.  ÍA hitti 28 en Þór hitti 29

-ÍA tók næstum jafn mörg 3ja stiga skot (32) og 2ja stiga skot (34)

-Þór hitti úr aðeins 19 af 39 vítaskotum sínum í leiknum á meðan ÍA hitti úr 18 af 22 vítaskotum sínum

-bekkurinn hjá ÍA skilað 30 stigum á töfluna á mót 6 stigum af bekknum hjá Þór

-bæði lið skoruðu 6 stig hvort eftir hraðaupphlaup

Umfjöllun / HGH

Myndir / Jónas H. Ottósson

Fréttir
- Auglýsing -