spot_img
HomeFréttirÍA heldur lífi í úrslitakeppnisvoninni

ÍA heldur lífi í úrslitakeppnisvoninni

Skagamenn tóku í gærkvöldi á móti botnliði 1. deildar, Reynismönnum frá Sandgerði. Fyrir leikinn voru gestirnir án sigurs í deildinni og heimamenn höfðu tapað tveimur leikjum í röð.  Í upphafi leiksins leit út fyrir að ÍA ætti fyrir höndum auðvelda göngu í garðinum, skoruðu 9 fyrstu stig leiksins og um miðjan fyrsta leikhluta var staðan 17-4 en Sandgerðingar unnu seinnihluta fyrsta fjórðungs 7-9 og staðan því 24-13 að honum loknum.

Annar og þriðji leikhluti voru voru með svipuðum hætti og seinni hluti fyrsta leikhluta.   Reynismenn söxuðu jafnt og þétt á forskot ÍA en munurinn fór minnst í 1 stig þegar rúmar tvær mínútur voru til leikhlés, 33-32, en ÍA skoraði þá síðustu 8 stig hálfleiksins og leiddu í hálfleik 41-32.

Í seinnihálfleik var ennþá verið að styðjast við sama handritið, ÍA leiddi en Reynir minnkaði og minnkaði muninn. Það var svo um miðjan þriðja leikhlutann sem það varð jafnt í fyrsta skipti í leiknum 49-49 en þá vöknuðu Skagamenn og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 58-49. Sandgerðingar settu svo tvær síðustu körfur fjórðungsins og völdu að hafa það eina 2ja stiga og einn þrist, unnu leikhlutann leikhlutann 17-20 og staðan fyrir loka leikhlutann því 58-54 fyrir ÍA. 

Í fjórða og síðasta leikhluta leiksins héldu leikmenn ÍA dampi, hleyptu Reynismönnum aldrei of nálægt sér þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir þeirra og 84-77 sigur ÍA varð staðreynd.

Það má segja að það hafi verið vörn heimamanna sem uppskar þennan sigur en skotnýting þeirra var líka ásættanleg, en það sama má reyndar segja um leik Reynismanna.  Sóknarlegar fór mest fyrir Sean Tate í stigaskori en hann setti 32 stig, hitti úr öllum 7 tveggja stiga skotum sínum og 3 af 8 þristum auk þess að setja 9 af 10 vítaskotum sínum ofan í hringinn.  Við þetta bætti hann svo 5 stoðsendingum.  Einnig átti Jón Orri Kristjánsson magnaðan leik, skoraði 20 stig auk þess sem hann tók 16 fráköst.  Þrátt fyrir þessa trölla tvennu er vert að minnast á það að kappinn skoraði úr 10 af 13 vítaskotum sínum í leiknum.

Hjá gestunum var Guðmundur Auðunn fremstur manna en hann skoraði 27 stig og hitti úr hvorki fleiri né færri en 8 af 19 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun/ HH
Mynd: Jónas H. Ottósson af Jóni Orra sem fór mikinn í kvöld og skilaði Grundartanga-tvennu.

Staðan í 1. deild karla

Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Fjölnir 8/1 16
2. Þór Ak. 8/2 16
3. Valur 7/2 14
4. Skallagrímur 6/3 12
5. Hamar 5/4 10
6. ÍA 5/5 10
7. Breiðablik 4/5 8
8. KFÍ 2/7 4
9. Ármann 2/7 4
10. Reynir Sandgerði 0/11 0
Fréttir
- Auglýsing -