Logi Gunnarsson var stigahæstur um helgina þegar lið hans Angers BC 49 hafði nauman 61-60 sigur á Blois í frönsku NM1 deildinni. Logi gerði 18 stig í leiknum, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á 36 mínútum. Okkar maður mætti vopnaður grímu í leikinn.
Nú ef við tökum mið af Facebook-umræðunni hjá Loga (og þaðan sem við stálum myndinni) þá mun ,,hvíti Zorro” festast við kappann og er það vel. Fer Logi þá í fríðan hóp manna með gælunöfn eins og Ægir Þór Steinarsson ,,Geitungurinn” og fleiri góðir. Logi varð fyrir því óláni fyrir skemmstu að nefbrotna á æfingu en Morgunblaðið greinir m.a. frá því í dag. Gríman er því eitthvað sem mun dvelja með honum á næstunni.
Angers eru í 12. sæti í frönsku NM1 deildinni með 6 sigra og 11 tapleiki en Blois sem Angers vann um helgina er í 9. sæti.