spot_img
HomeFréttirHvet alla íslenska þjálfara til þess að stefna á þetta nám

Hvet alla íslenska þjálfara til þess að stefna á þetta nám

 
 
Einar Árni Jóhannsson annar af þjálfurum Njarðvíkinga og unglingalandsliðsþjálfari hjá KKÍ lauk á dögunum þjálfararéttindum FIBA Europe, svokallað FECC (FIBA Europe Coaching Certificate). Einar Árni er fyrsti Íslendingurinn sem lýkur þessu námi sem er 3ja ára nám og fer ávallt fram í tengslum við Evrópukeppnir yngri landsliða.
Karfan.is heyrði í Einari Árna sem er nýkominn heim frá Bilbao á Spáni þar sem lokahnykkur námsins fór fram í tengslum við Evrópukeppni U20, A deildar.
 
,,Námið fer fram í viku í senn þrjú sumur í röð. Fyrsta árið er í tengslum við U16 A deildina og ég var þá í Kaunas í Litháen. Annað árið er svo í tengslum við U18 og í fyrra var ég í Vilnius í Litháen. Lokaárið er svo tengt U20 og við vorum á Spáni þetta árið. Í náminu eru fjölmargir fyrirlestrar, bæði í fyrirlestrasölum og úti á gólfi í íþróttahúsum. Aðalkennari okkar er Svedislav Pesic sem er einn albesti þjálfari í heiminum enda segir ferill hans helling, hafandi gert Þjóðverja að Evrópumeisturum (1993), Júgóslava að Evrópumeisturum (2001) og Heimsmeisturum(2002) og unnið Evrópumeistaratitilinn á öllum stigum með yngri landslið Júgóslava og þá hefur hann gert magnaða hluti með lið eins og Alba Berlín, FC Barcelona, og tók í vetur við liði Valencia en hann hefur líka verið mjög sigursæll með sín félagslið bæði í deildarkeppnum heima fyrir og í Evrópukeppnum. Á meðal annarra kennara má nefna Pablo Laso sem er þjálfari Real Madrid en hann var með okkur í fyrra og aftur núna í ár og Janez Drvaric sem gerði m.a. Cibona Zagreb að Evrópumeisturum ´87 (Cibona spilaði gegn Njarðvík í Evrópukeppninni 1991), og var aðstoðarþjálfari hjá Júgóslavneska landsliðinu í nokkur ár en hann var að þjálfa á Ítalíu í vetur en er að færa sig í starf yfirþjálfara unglingastarfs Olimpija Ljubljana í Slóveníu, en hann er þaðan, sá kall er frábær kennari".
 
 
Hvernig lýsirðu náminu svo?
 
,,Við þurfum að flytja fyrirlestur á fyrsta og öðru ári þar sem þjálfarar fá úthlutað viðfangsefni og þetta eru stærstu verkefnin á fyrstu tveimur árunum. Eftir bæði fyrsta og annað árið fáum við heimaverkefni sem eru frekar viðamikil en fáum reyndar góðan tíma til að vinna þau. Á lokaárinu er svo mesta vinnan en þá tökum við fyrst skriflegt próf úr öllum námsþáttunum, og svo er munnlegt próf með Pesic og tveimur öðrum aðalkennurunum í náminu og verklegi þátturinn er þannig byggður að þú færð með sólarhrings fyrirvara ákveðið viðfangsefni til að vinna með "á æfingu" og þarft að skila tímaseðli fyrir 90 mínútna æfingu og svo velja kennararnir hvaða þátt þú tekur fyrir út á gólfi fyrir þá. Ástæðan fyrir því að við fylgjum U16-U18-U20 er að áherslan er á viðkomandi aldur hverju sinni. Fyrsta árið snýr að 15-16 ára og svo framvegis. Við sjáum 12 til 15 leiki á hverju sumri og sum verkefni á fyrsta og öðru ári tengjast leikjunum".
 
 
Hvað er þetta stór hópur sem er í árgangnum?
 
,,Við vorum 60 sem fórum af stað en erum um 50 núna sem ljúkum náminu, reyndar er hluti þeirra sem hafa ekki tekið öll skrefin að klára 2013 með næsta árgangi þar sem þeir hafa verið uppteknir í verkefnum á sama tíma og við höfum verið í Litháen eða á Spáni. FIBA fer af stað með árgang annað hvert ár, og fyrsti árgangurinn var í náminu 2007-2009 þannig að við erum annar árgangurinn sem klárar þetta ferli, sem þýðir að það eru um 100 þjálfarar í Evrópu sem hafa klárað þetta nám. Það skemmtilega við svona stóran hóp er náttúrulega að kynnast fjölmörgum þjálfurum víða í Evrópu og á alls konar levelum. Í mínum árgangi eru þjálfarar sem eru aðalþjálfarar liða sem eru í stærstu deildum Evrópu, aðstoðarþjálfarar hjá liðum í Euroleague, og fjölmargir þjálfarar úr meðalstórum deildum en einnig ungir og efnilegir þjálfarar sem eru í U16 og U18 þjálfun í sínum löndum. Þá eru þónokkrir starfandi landsliðsþjálfarar, bæði A landsliðs og yngri landsliða. Það má því segja að þetta sé öll flóran og maður hefur eignast marga góða vini á þessum þremur árum".
 
Er eitthvað sem stendur upp úr hvað námið varðar á þessum þremur árum?
 
,,Ég væri nú að ljúga ef ég segði ekki að það að fá leiðbeiningar frá mönnum eins og Svedislav Pesic, Janez Drvaric og Pablo Laso. Svo er það náttúrulega tengslanetið sem myndast við það að fara í svona nám, það er líka ómetanlegt. Hópurinn heldur góðu sambandi og ég hef t.d. fengið góðar upplýsingar um leikmenn erlendis í gegnum góða félaga og svo eru menn oft að leita að æfingaleikjum eða liðum í mót, bæði fyrir eldri yngri flokka (U16 & U18) og meistaraflokka þannig að tengslanetið getur hjálpað í mörgum myndum. Að fá að fylgjast með bestu liðum Evrópu í hverjum árgangi fyrir sig er svo náttúrlega bara krydd í þetta. Mun t.d. seint gleyma úrslitaleiknum í U18 í fyrra í Vilnius þar sem Jonas Valanciunas fór fyrir heimamönnum. Þar voru um 13 þúsund manns og svakaleg stemming. Valanciunas var svo draftaður í NBA í sumar af Toronto Raptors, fimmti í röðinni".
 
Það hefur verið svolítið sérstakt að taka við viðurkenningunni úr hendi Íslendings, Ólafi Rafnssyni forseta FIBA Europe?
 
,,Það var sérstakt en ekki síður mjög skemmtilegt. Að við Íslendingar skulum eiga forseta FIBA Europe er svo miklu stærra afrek en margur heldur. Félagar mínir í náminu höfðu margir á orði hvað það væri magnað að forsetinn væri frá litla Íslandi. Ólafur og Nar Zanolin framkvæmdastjóri afhentu öllum viðurkenningar en með þeim voru Michael Schwarz frá FIBA Europe sem skipuleggur námið og svo Svedislav Pesic sem er mentorinn og þeir Janes Drvaric og Pablo Laso. Þetta var hátíðleg athöfn sem markaði lok á mjög krefjandi en skemmtilegu námi og ég hvet alla íslenska þjálfara til að stefna á að komast inn í námið á næstu árum. Ísland á eitt öruggt sæti annað hvert ár og 2011 fengum við tvö sæti sem Lárus Jónsson og Hjalti Þór Vilhjálmsson fengu og þeir eru á leið til Tékklands núna undir mánaðamót, þar sem þeir hefja sitt ferli.
 
Hvað er svo næst á dagskrá hjá þér í boltanum?
 
,,Ég er búinn að vera erlendis að körfuboltast 16 af síðustu 21 dögum svo nú kemur kærkomið frí en í byrjun ágúst fer meistaraflokkurinn á fullt og svo fara æfingar allra yngri flokka af stað í síðari hluta ágúst, svo það styttist bara í fjörið, en þangað til ætla ég að hlaða batteríin", sagði Einar Árni að lokum í samtali við Karfan.is
 
Mynd/ Ólafur Rafnsson og Nar Zanolin ásamt Einari Árna Jóhannssyni fyrir miðju.
Fréttir
- Auglýsing -