spot_img
HomeFréttir?Hvernig skilja Íslendingar það að setja upp kerfi?"

?Hvernig skilja Íslendingar það að setja upp kerfi?”

16:00

{mosimage}

Eflaust muna einhverjir eftir Sune Henriksen, leikstjórnandanum knáa sem lék með Tindastól veturinn 1999-2000 við góðan orðstír. Hann kom til Íslands með félaga sínum Flemming Stie en þeir höfðu leikið saman með Bakken bears.

 

Lítið hefur heyrt af Sune á Íslandi eftir dvöl hans þar og karfan.is hafði upp á kappanum í Danmörku og lagði fyrir hann nokkrar spurningar sem hann svaraði með glöðu geði.

Hvað er Sune að gera í dag? Eitthvað tengt körfubolta?

Því miður lagði ég körfubolta á hilluna 2001 vegna hælmeiðsla, eftir það hef ég einbeitt mér að arkitekt- og umhverfisskipulagsnámi. Ég flutti til Álaborgar og þrátt fyrir að bærinn hafi haft Basketligalið í mörg ár þá kom ég ekki nálægt því liði á nokkurn hátt. Ég hafði einfaldlega enga tengingu við félagið. Í tengslum við vinnu og fjölskyldu er ég nú fluttur til baka til Árósa (heimabæ Bakken bears) og það hefur greinilega aukið áhuga minn á körfuboltanum að nýju. Ég gæti vel hugsað mér að koma á einhvern hátt nálægt starfinu í Bakken bears en því miður hef ég ekki tíma til þess akkúrat núna. Fylgist þó grannt með liðinu, félaginu og fyrirtækinu í kringum það.

 

 

{mosimage}

Hvers vegna fórstu til Íslands á sínum tíma?

Valur Ingimundarson – sem ég upplifði seinna sem „goðsögn” í íslenskum körfubolta – hringdi í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma til Íslands og spila. Við höfðum oft att kappi hvor við annan í Danmörku þegar Valur spilaði með Odense og ég var í Bakken bears. Mér þykir leitt að segja það Valur, en við unnum ykkur alltaf. Ég var á þeim stað í lífinu að ég hafði þörf fyrir eitthvað nýtt og Ísland var sannarlega eitthvað nýtt. Ég gerði mér ekki grein fyrir á þessum tímapunkti hvað ég mundi meta íslenskt körfuboltahugarfar, íslenskt landslag og fólkið mikils. Þetta var val sem ég tók bæði til að bæta mig sem körfuboltamann og einnig persónulega.

Hvað hugsaðir þú þegar þú komst til Sauðárkróks, strákur frá stórbænum Árósum kemur til litla sveitabæjarins á Íslandi.

Hahaha… Ég get nú ekki sagt að Árósar séu stórbær, frekar landsbyggðarbær með mikilmennskubrjálæði, skáldin kalla hann heimsins minnsta stórbæ. Nei auðvitað var Sauðárkrókur allt annað. Það var stórkostlegt að upplifa stuðninginn og stoltið sem bæjarbúar bera fyrir liðinu. Þess vegna var líka mikil pressa á okkur sem vorum aðkeyptir að liðið næði árangri. Við unnum sem betur fer Eggjabikarinn snemma á tímabilinu – fyrsti titill félagsins – og það létti á pressunni. Það var stórkostleg upplifun að kom með bikar heim frá Reykjavík til framandi bæ í norðri. En því miður virkaði þessi bikar sem koddi fyrir okkur, leikur okkar gekk brösulega eftir þennan sigur. Ég man að það vakti athygli mína hversu ungir leikmenn voru sterkir líkamlega og höfðu mikinn leikskilning. Það sem mér fannst ég aftur á móti geta lagt til var skipulag og reynsla, enda hafði ég unnið nokkra meistaratitla í Danmörku. Ég held líka að ástæða þess að við vorum ósigrandi á köflum (við unnum 13 leiki í röð), var að við fundum gott jafnvægi á milli „run and gun” og að setja upp kerfi. Við höfðum leikmenn sem gátu bæði. Þá sjaldan að Kiddi (Kristinn Friðriksson) og Frikki (Friðrik Hreinsson) hittu ekki úr skotum sínum, gátum við skipt um hraða og stíl, sem gerði okkur mjög alhliða.

Já við vorum að tala um litla bæinn. Ég fann vel fyrir að ég var utanbæjarmaður – ég þekkti ekki fólk, söguna eða innviðina. Ég var ekki vanur að allir þekktu alla í bænum og ég þurfti að venjast því. Á þann veg var Sauðárkrókur lítill bær en það hentaði mér vel.

 

 

{mosimage}

Ef þú lítur til baka, hvað fannst þér um tímann á Íslandi?

Ef það er ekki hægt að lesa það nú þegar á milli línanna, þá skulum við koma því á hreint. Upplifun mín á Íslandi er bæði sú heitasta og kaldasta. Þökk sé fólkinu þá er hún sú heitasta en veðrið gerði hana að þeirri köldustu.

Var mikill munur á íslenskum og dönskum körfubolta?

Já það finnst mér, ég hugsa að Flemming Stie myndi taka undir það með mér. Við rökræddum oft muninn þetta ár sem við vorum þarna uppi. Afhverju á að senda boltann um leið og maður kemur yfir miðlínu? Hvernig skilja Íslendingar það að setja upp kerfi? Hvers vegna gráta danskir leikmenn yfir smá líkamlegri snertingu? Mér finnst eitt atriði í nýjustu Lars von Trier myndinni (Direktøren), þar sem Danirnir semja við Íslendingana um yfirtöku á fyrirtæki, gefa frábæra mynd af þessu. Til að skilja hvað ég meina þá verður fólk bara að sjá myndina. Friðrik Þór Friðriksson og Benedikt Erlingsson er ofboðslega fyndnir.

Og til að gera þetta skorinort:

Ísland: Hvatvísi, frumkvæði og hreyfanleiki

Danmörk: Skipulagt, fleiri stórir leikmenn og betri dómarar.

Hvers vegna fórstu tilbaka? Spilaðir þú körfubolta þegar þú komst tilbaka?

Mér var boðið að vera annað tímabil í Tindastól en ég þurfti að fara heim og hefja nám, held ég hefði annars orðið áfram. Það var á margan hátt freistandi að taka eitt ár í viðbót. Ég spilaði eitt tímabil í viðbót með Bakken bears en hælmeiðsli urðu til þess að ég varð að leggja skóna á hilluna.

Fylgist þú enn með íslenskum körfubolta?

Nei ekki lengur. Ég fylgdist vel með árin eftir að ég flutti til baka en núna er það bara ef íslensk lið heimsækja Danmörku eða Danir leika á Íslandi (Thuesen, Darboe, Katholm, Kotila o.s.frv.). Hvernig gengur eiginlega þarna uppi?

Heldur þú sambandi við einhverja á Íslandi?

Nei því miður ekki fast. Ég sé eftir því að hafa ekki bundist þéttari böndum, en það var kannski ekki tími til þess. Kannski vefir eins og t.d. Facebook tengi mann við gamla kunningja.

Hefur þú verið á Íslandi eftir þetta?

Nei því miður ekki, en ég hef plön um að koma þangað. Eyjan hefur upp á margt að bjóða, líka fyrir mitt nýja fag, arkitektur og landslagshönnun. Ísland getur gefið manni margar hugmyndir svo það er bara spurning um tíma áður en ég stíg aftur til jarðar í flugstöðinni í Keflavík.

Eitthvað að lokum?

Já, ég er nýbúinn að taka SigurRósardiskinn Heima úr DVD spilaranum og það minnir mig á að Ísland var mitt „Heima” í eitt ár. Ár sem hafði mikla þýðingu fyrir mig og mína sögu og ég vil því fá að nota tækifærið og skila kveðju til allra þeirra sem tóku þátt í að gefa mér frábæra upplifun á eyjunni í Norður Atlantshafinu. Ég hef því miður ekki gert mikið af því.Þakkir til Valur I, Isak E, Kiddi, Helgi, Kirstin, Frikki, Svabbi, Lalli, Shawn M, Flemming S, Kirstin, Kári M, Biggi, Sigrun B, Axel K, Joe, Sigur Ros, Halldor H og allra annarra á Sauðárkróki sem sáu svo vel um mig. Við sjáumst.

Karfan.is þakkar Sune fyrir viðtalið.

[email protected]

Myndir: www.bakkenbears.dk

Fréttir
- Auglýsing -