spot_img
HomeFréttirHverjir fara í Laugardalshöll?

Hverjir fara í Laugardalshöll?

Í kvöld ræðst það hvaða lið tryggi sér farseðilinn í bikarúrslit karla 2014 en báðir undanúrslitaleikir Poweradebikarkeppninnar fara fram í kvöld. Báðir hefjast þeir kl. 19:15 og verður viðureign Grindavíkur og Þórs úr Þorlákshöfn í beinni útsendingu hjá RÚV Íþróttir. Tindastóll tekur svo á móti ÍR í Síkinu á Sauðárkróki og ekki ósennilegt að kempurnar á Tindastóll TV verði við vélarnar.
 
 
Stólarnir geta orðið fyrsta liðið sem ekki leikur í úrvalsdeild til þess að komast í bikarúrslit en til þess að þessi kafli geti ritast í sögubækurnar þurfa þeir að fara í gegnum ÍR sem er í fantaformi um þessar mundir og virðast hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga á nýja árinu. Stólarnir hafa ekki tapað leik á tímabilinu og því ljóst að leikurinn í Síkinu verður svakalegur og heimamenn fjölmennir á pöllunum.
 
Þór úr Þorlákshöfn getur í kvöld tryggt sér sinn fyrsta bikarúrslitaleik í sögu félagsins en Grindvíkingar eru öllum hnútum kunnugir í Höllinni og hefur félagið fjórum sinnum orðið bikarmeistari, mest allra þeirra sem skipa undanúrslitin í kvöld. Grindvíkingar eru vísast hungraðir í Höllina enda lágu þeir 79-91 gegn Stjörnunni á síðustu leiktíð í bikarúrslitum.
Takið þátt í könnuninni hér til hægri og segið okkur hverjir þið haldið að fari alla leið í úrslitin
 
Mynd/ Hr. Þorlákshöfn, Baldur Þór Ragnarsson, ferðu með þjóð þína í Höllina í fyrsta sinn? 
 
Fréttir
- Auglýsing -