Skallagrímsmenn sigruðu lið Hamars frá Hveragerði heima í Fjósinu í Borgarnesi kvöld þegar fjórða umferð Lengjubikars karla fór fram. Lokatölur leiksins urðu 104:92, en staðan í hálfleik var 60:36 fyrir Borgnesinga. Eins og tölurnar bera með sér var leikurinn sveiflukenndur en Skallagrímsenn réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik með góðum leik jafnt í vörn sem sókn. Sérstaklega voru okkar menn duglegir að nýta tækifærin fyrir utan þriggja stiga línuna í hálfleiknum og settu þeir ófáar körfur þaðan niður. Liðið varð fyrir blóðtöku áður en flautað var til hálfleiks því bæði Trausti Eiríksson og Valur Sigurðsson urðu að fara meiddir af velli, Trausti vegna þessa að fylling í tönn hans brotnaði eftir samstuð og Valur eftir að hafa snúið á sér öklann. Meiðsli þeirra eru þó ekki alvarleg. Umfjöllun leiksins er fengin af heimasíðu Skallagríms.
Hamarsmenn komu ferskari til leiks í seinni hálfleik og undir forystu Danero Thomas söxuðu þeir muninn jafnt og þétt þannig að forskot heimamanna var einungis ellefu stig að loknum þriðja leikhluta. Töluverð áhrif hafði á leik Borgnesinga að Grétar Ingi Erlendsson þurfti að hvíla þriðja leikhlutann að mestu vegna villuvandræða, en þar sem einnig vantaði Trausta Eiríksson í teiginn með Grétari, voru heimamenn veikari en ella undir körfunni. Þrátt fyrir þetta náðu Skallagrímsmenn halda Hamarsmönnum í seilingarfjarlægð í fjórða leikhlutanum og munaði þar töluvert um frammistöðu Orra Jónssonar og Egils Egilssonar sem stigu upp á viðkvæmum augnablikum á lokamínútunum. Lokastaðan eins og áður sagði 104:92 og Borgnesingar þar með komnir með 6 stig í C-riðli.
Fremstur í liði Skallagrímsmanna í leiknum var Egill Egilsson sem átti sinn besta leik í Skallagrímsbúningnum til þessa með 20 stig og hvorki meira né minna en 22 fráköst. Stigahæstur í liði heimamanna var hins vegar Davíð Ásgeirsson sem skoraði 23 stig. Grétar Ingi Erlendsson stimplaði sig vel inn í Fjósinu í kvöld þrátt fyrir villuvandræði í seinni hálfleik og skoraði 20 stig. Þá skoruðu Davíð Guðmundsson 19 stig, Orri Jónsson 17, sem einnig gaf 10 stoðsendingar, og Sigursteinn O. Hálfdánarson 5. Aðra tölfræði leiksins má sjá hér að neðanverðu.
Með sigrinum komst Skallagrímur í annað sæti C-riðils og er liðið nú jafnt Stjörnunni, sem sigraði KFÍ á sunnudaginn, með 6 stig. Næsti leikur Skallagríms er á föstudaginn gegn KFÍ en leikið er á Ísafirði. Með sigri geta Borgnesingar tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum Lengjubikarsins.
Mynd úr safni/ Egill Egilsson átti góðan leik gegn Hvergerðingum í kvöld.



