spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaHvergerðingar auðveld bráð í Ljónagryfjunni

Hvergerðingar auðveld bráð í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar nældu í tvö dýrmæt stig í toppbaráttu Subway-deildarinnar í kvöld með öruggum 103-72 sigri á nýliðum Hamars. Strákarnir úr blómabænum sýndu þó nokkrum sinnum tennurnar en það dugði ekki til.

Heimamenn í Njarðvík mættu kröftugir til leiks og leiddu 33-17 að loknum fyrsta leikhluta. Vörn gestanna úr Hveragerði átti fá svör og gestirnir fóru helst til of illa með boltann gegn sterkri vörn Njarðvíkinga, 11 tapaðir boltar á 10 leikmínútum.

Hamarsmenn fundu fína fjöl í svæðisvörn sinni í upphafi annars leikhluta og byrjuðu annan leikhluta 8-10 á meðan ljónin freistuðust til að taka hvern þristinn á fætur öðrum og fæstir þeirra vildu niður. Þetta form hélt áfram út annan leikhluta en Njarðvíkingar unnu þó þessar tíu mínútur 17-16 og leiddu því 50-33 í hálfleik.

Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur Njarðvíkinga í hálfleik með 13 stig en Björn Ásgeir Ásgeirsson var með 12 hjá Hamri.

Í þriðja fóru þristarnir loks að detta hjá Njarðvíkingum og þá varð inn-út jafnvægið meira í þeirra leik en Hamarsmenn héldu uppteknum hætti með svæðisvörn sína. Daníel Sigmar Kristjánsson fékk reyndar snemma sína fimmtu villu í liði Hamars og þegar leið á þriðja haltraði Ragnar Nathanaelsson af velli eftir samstuð. Njarðvíkingar leiddu að loknum þriðja 80-59 og fátt annað en sigur heimamanna í kortunum.

Til allrar lukku fyrir Hvergerðinga var ekki um neitt alvarlegt að ræða hjá Ragga Nat og var hann mættur aftur á parketið í fjórða leikhluta. Leikurinn rann nokkuð örugglega sitt skeið án nokkurrar ógnunar við sigur heimamanna. Lokatölur í Ljónagryfjunni í kvöld 103-72.

Chaz var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með 24 stig og Dwayne bætti við 21 stigi og Þorvaldur 19. Hjá Hamri var Björn Ásgeir með 20 stig, Franck Kamagin 19 og Diculescu 18.

Tölfræði leiksins


Fróðleiksmoli
Örn Sigurðarson leikmaður Hamars er upprunalega úr Haukum og varð t.d. Íslandsmeistari með Haukum í 7. flokki. Á meðal leikmanna í því liði var handboltalandsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson. Aukareitis var Pálmar Sigurðsson faðir Arons þjálfari liðsins og eins og margir gætu munað A-landsliðsmaður Íslands í eina tíð í körfubolta.

Gangur leiksins:
18-8, 33-17
41-27, 50-33
69-50, 80-58
91-68, 103-72

Fréttir
- Auglýsing -