spot_img
HomeFréttirHver er þessi Griffin sem er að misþyrma NBA deildinni?

Hver er þessi Griffin sem er að misþyrma NBA deildinni?

 
Þrettán leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt og í enn eitt skiptið stal nýliðinn Blake Griffinn senunni og nú smellti kappinn niður 47 stigum gegn Indiana Pacers í Staples Center. Þá var Griffin einnig með 14 fráköst og því búinn að ná 27 tvennum í röð. Nýliði ársins, vísast.
Indiana Pacers áttu einfaldlega engin svör við Griffin sem var með magnaða nýtingu, setti 19 af 24 teigskotum sínum og 9 af 11 vítum og þá var hann einnig með 3 stoðsendingar. Hjá Pacers var Danny Granger stigahæstur með 32 stig.
 
Griffin varð einnig í nótt fyrsti nýliðinn til þess að skora 40 stig eða meira í tveimur leikjum síðan Allen nokkur Iverson sýndi sig fyrst í NBA deildinni. Þá hefur enginn leikmaður skorað meira í einum leik í NBA þetta tímabilið og ljóst að nýliðinn er búinn að stimpla sig rækilega inn. Í stað þess svo að láta þurr úrslit úr hinum 12 leikjum næturinnar fylgja hér að neðan skulum við heldur aðeins kíkja á Blake Griffin. Hvaðan kom hann? Hver er hann? Hvað er hann?
 
Blake Griffin er fæddur 16. mars árið 1989 og ef stærðfræðin svíkur ekki greinarhöfund (sem hún hefur reyndar gert allt of oft) þá er Blake Griffin að verða 22 ára gamall. Hann er fæddur í Oklahoma City, sonur Gail og Tommy Griffin en faðir hans lék á sínum yngri árum sem miðherji hjá Northwestern Oklahoma State University.
 
Bræðurnir Blake og Taylor Griffin fengu ,,heimaskóla” hjá móður sinni langt fam eftir öllum skólaaldri og var hans reynsla af körfubolta framan af í innkeyrslunni heima hjá sér. Þegar Griffin svo loks fór í miðskóla, Oklahoma Christian School, þá reyndi hann m.a. fyrir sér í hafnabolta, knattspyrnu og amerískum ruðningi.

 
2003-2005 léku Griffin bræðurnir undir stjórn föðursíns í miðskólanum og urðu bæði tímabilin fylkismeistarar. Í stuttu máli sagt var Blake Griffin einn albesti miðskólaleikmaðurinn þessi tímabil sem hann lék undir stjórn föður síns en svo kom að því að kappinn þurfti að velja sér háskóla. Verandi heimaskólaður og heimakær valdi hann University of Oklahoma, hvað annað. Þar með hafnaði hann myndarlegum tilboðum frá ekki ómerkari skólum en UConn, Duke, Michigan og Nort-Carolina. Ekki amalegt að senda svoleiðis tröllum langt nef.
 
Meiðslin hafa vissulega sett strik í reikninginn hjá Griffin en hann lét samt vel til sín taka í háskólaboltanum og búist var við því að hann yrði í nýliðavalinu 2008 en sjálfur vildi hann taka ár til viðbótar í Oklahoma til að gefa sjálfum sér færi á því að þroskast betur sem leikmaður.
 
Framganga Griffin á sínu öðru ári með Oklahoma skólanum skilaði honum m.a. Oscar Robertson Trophy, var útnefndur Associated Press College Basketball Player of the Year, þá hlaut hann Naismith College Player of the Year og síðast en ekki síst hlaut hann John Wooden verðlaunin sem eru þau mikilsvirtustu í bandarískum háskólabolta.
 
7. apríl 2009 tilkynnti Blake Griffin svo að hann ætlaði sér ekki að leika tvö síðustu árin í háskóla og dembdi sér út í nýliðaval NBA deildarinnar. Los Angeles Clippers völdu hann fyrstan allra í valinu og lék hann með liðinu í sumardeildinni og var valinn besti leikmaður deildarinnar.
 
Reiðarslagið kom svo í síðasta æfingaleik Clippers áður en tímabilið hófst en þá meiddist Griffin þegar hann lenti eftir eina skrímslatroðsluna. Gert var ráð fyrir því að frumraun hans í NBA deildinni væri aðeins í sjö vikna fjarlægð en í ljós kom að hann þyrfti umfangsmeiri aðgerð sökum meiðslanna og að tímabilið í heild væri út úr myndinni.
 
Af þessum sökum er Griffin enn nýliði í NBA deildinni og fæst ekki séð að nokkur maður standist honum snúning. Hinn heimaskólaði ljúflingur fékk brösuga byrjun á tímabilinu með Clippers en litli maðurinn í Los Angeles er óðar fikra sig hærra upp töfluna og höfðu m.a. sigur á stóra bróður Lakers á dögunum.
 
Blake Griffin er lentur með látum í NBA deildinni og er það stærsta síðan LeBron James.

[email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -