spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaHvar kemur að ferðalokum hjá Garðbæingum?

Hvar kemur að ferðalokum hjá Garðbæingum?

Hugleiðing um möguleika Stjörnunnar í úrslitakeppninni

Framganga Stjörnumanna að undanförnu hefur ekki þótt líkleg til bikarupplyftinga á næstunni. En er eitthvað að létta til í Garðabænum, glittir í stjörnu bakvið ský? Mun minningin um glæsta sigra fyrr á tímabilinu birtast Garðbæingum ljóslifandi og blása þeim byr í brjóst fyrir framhaldið?

Garðbæingar geta látið sig dreyma um það miðað við mjög góðan sigur Stjörnunnar gegn Grindavík í fyrsta leik einvígisins. Það yrði svo sem ekki slegið upp veislu ársins í Garðabænum þó liðið beri sigur úr býtum í þessari seríu. En fari svo má búast við því að liðið mæti Þór Þ. í næstu umferð og með fullri virðingu fyrir Grindavík eru Þórsarar talsvert skeinuhættari andstæðingur. Þór hefur heimaleikjaréttinn og það gæti gert gæfumuninn. Stjarnan hefur þó stefnt á Íslandsmeistaratitilinn í mörg ár og ferð liðsins gæti fram haldið.

Ef svo fer bíða þeirra að öllum líkindum Keflvíkingar, hinum megin við fagurt en ógurlegt eitt stykki eldgos. Skjótt gæti dregið fyrir sólu í Garðabænum og stjörnuspilamennskan góða orðið eins og minningin ein sem lýsir sem leiftur um nótt langt fram á liðinni deildarkeppni. Ferðalok Stjörnumanna kæmu þá nokkuð of snemma að þeirra mati líkt og hjá listaskáldinu góða.

Leiðin að takmarkinu er því augljóslega býsna grýtt fyrir Stjörnuna og enn skýjum hulin. En vonin lifir að eilífu og við spyrjum að ferðalokum.

Jákvæð teikn í leik Stjörnunnar: 1. Alex er kominn til baka og virðist ekki stríða við hræðilegar og langvinnar afleiðingar Covid-sýkingar (15 stig á 18 mínútum). 2. Það sást glitta í þann frábæra varnarleik sem Stjörnumenn eru færir um að spila, jafnvel þó Arnar hafi ekki haft færi á að sýna íðilfagrar hreyfingar sínar á hliðarlínunni leikmönnum sínum til hvatningar og eftirbreytni. 3. Verður Mirza frábær í úrslitakeppninni? 4. Ægir hefur sett þriggja stiga skot…og Tommi líka (0/10 saman í þristum í leiknum gegn Grindavík)! 5. AJ er frábær leikmaður… og e.t.v. vanmetinn af mörgum?

Fréttir
- Auglýsing -