Tracy McGrady er þessa dagana að reyna heilla hin ýmsu lið í þeim tilgangi að fá samning fyrir næsta vetur. Hann var hjá L.A. Clippers í vikunni og æfði með þeim og mun svo halda til Chicago í næstu viku og æfa með Bulls.
McGrady sem var einu sinni ein skærasta stjarna NBA-deildarinnar, stigahæsti leikmaðurinn og margfaldur stjörnuleikmaður hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið. Hann endaði síðustu leiktíð í herbúðum New York eftir að hafa verið skipt frá Houston.
Meiðsli hafa valdið honum vandræðum undanfarin ár en hann hefur aðeins náð að spila 65 leiki undanfarin tvö tímabil. Hann lék 24 leiki fyrir New York í fyrra og var með 9.4 stig og 3.9 stoðsendingar.
Þrátt fyrir að stjarna hans hefur fallið hratt af stjörnuhimninum er McGrady afar hæfileikaríkur leikmaður sem getur styrkt hvaða lið sem er ef heilsan og hugurinn er í lagi. Það er ljóst að hann verður að sætta sig við mun minna hlutverk hjá því liði sem hann verður hjá næsta vetur þ.e.a.s ef hann verður í deildinni.
Mörg lið hafa sýnt honum áhuga og þar á meðal L.A. Clippers, Chicago, Miami, Boston og L.A. Lakers.
Mynd: Mun hann rísa úr öskustónni í vetur?



