spot_img
HomeFréttirHvað gerir tölfræðigreining fyrir körfuboltann?

Hvað gerir tölfræðigreining fyrir körfuboltann?

Charles Barkley liggur sjaldnast á skoðunum sínum og oft hefur maður hlegið sig máttlausann af bullinu í honum. Nú síðast hélt hann skammarræðu um Daryl Morey, framkvæmdastjóra Houston Rockets og hvernig hann reiðir sig á tölfræði til að byggja liðið upp.
 
Barkley sagði “analytics” gauranna allt vera lúða sem hefðu aldrei spilað leikinn og aldrei náð í stelpur í skóla, og þess vegna séu þeir að þykjast vera klárari en aðrir með stærðfræðiformúlum. Leikurinn byggist upp á hæfileikum þeirra leikmanna sem spila hann en ekki á þeirri tölfræði sem af leiknum kemur.
 
Ábendingar Barkley eru að mörgu leyti réttar. Uppistaða leiksins er og mun alltaf vera geta, þekking, reynsla og framkvæmd þeirra leikmanna sem inni á vellinum eru. Það er engum blöðum um það að fletta. Það þarf alltaf einhver að spila leikinn og hann er ekki spilaður með gagnagrunnum og Excel.
 
Keith Olberman stökk hins vegar til og rak þessi orð Barkley þvert ofan í hann með sprenghlægilegu innslagi í þætti sínum stuttu síðar.
 
 
Hvað varðar körfubolta þá getur tölfræði og greining á henni hjálpað þér að slípa til þær áherslur sem þú vilt leggja á leikinn þinn, ef þú ert leikmaður og á liðið þitt, ef þú ert þjálfari. Morey er þeirrar skoðunar að mid-range skot séu nánast töpuð stig því líkindin á að þau fari niður samanborið við útkomuna frá þeim séu ekki áhættunnar virði. 40% líkur á 2 stigum gefa af sér minni gæði (0,8) en 30% af 3 (0,9).
 
Þetta er einföld stærðfræði, en aðeins þegar þú ert með þekktar stærðir í öllum breytum. Þú verður þá að hafa +30% þriggja stiga skyttur fyrir utan og þú verður að hafa einhvern í teignum sem klárar færin sín þar betur en flestir í deildinni.
 
Það að Rockets hafi fengið á sig 118 stig gegn Phoenix segir nákvæmlega ekki neitt. Stigaskor verður að skoða í samhengi við hraða leiks. Ef þú færð á þig 118 stig og leikhraðinn var 98,8 sóknir eru stig per sókn 1,194. Það kallar ekki á hrós fyrir góða vörn en það þýðir heldur ekki hörmuleg vörn eins og Barkley segir. Meðaltal deildarinnar er 1,056. Houston fá á sig að meðaltali 99,7 stig í leik sem setur þá í 17. sæti í deildinni. Þeir hins vegar fá á sig 1,028 stig per sókn sem er það 7. besta í deildinni.
 
Stig per sókn sýna skilvirkni liðs. Það geta öll lið skorað yfir 120 stig í leik fái þau 120 sóknir til þess. Það er hins vegar ekki mjög skilvirk leið til að vinna leiki. Phoenix skoruðu 36 stig fyrir utan þriggja stiga línuna í þessum leik og nýtingin hjá þeim var 46,2%. Phoenix er gríðarlega gott sóknarlið. Ef þeir drekkja þér ekki í þristum þá keyra þeir í bakið á þér með hraðaupphlaupum.
 
Shane Battier sem lék lengi vel með Houston Rockets, en er nýhættur í deildinni eftir góðan tíma með Miami Heat, birtist í myndbandi í vikunni þar sem hann ræddi hvernig tölfræðigreining hafi hjálpað honum að ná árangri sem einn af bestu varnarmönnum NBA deildarinnar. Hann kortlagði sóknarleik andstæðinga sinna eftir mesta megni. Hvar á vellinum skorar hann mest? Hvers konar skot tekur hann? Hvora hendina vill hann drippla mest með? Allt upplýsingar sem varnarmenn þurfa að vita. 
 
Battier er þekktastur fyrir að þurfa að líma sig á Kobe Bryant í úrslitakeppninni þegar Rockets mættu ítrekað Lakers með Kobe í toppformi. Kobe er þannig leikmaður að hann finnur alltaf leið til að skora á þig. Battier segir skilvirkast að finna leið til að láta hann skora aðeins minna með því að láta hann taka skot sem hann vill síður taka (hvernig sem það er hægt). Battier útskýrði hvernig hann nýtti tölfræðigreiningu til þess að ná árangri við einmitt þetta.
 
 
Persónulega verð ég eiginlega að taka undir með Olberman í þessu máli. Chuck er kjáni.
Fréttir
- Auglýsing -