Fimmtudaginn 14. nóvember sl. fór fram leikur Vals og Þórs Þorlákshafnar í Vodafonehöllinni. Sá leikur er ekki aðeins merkilegur fyrir þær sakir að þetta var fyrsti sigurleikur Vals í Dominosdeildinni í vetur heldur vakti athygli “afrek” Chris Woods í leiknum.
Chris Woods tók samtals 40 skot í leiknum og fór ekki einu sinni á vítalínuna allar 36 mínúturnar sem hann lék. Sá sem þetta ritar man ekki til þess að þetta hafi nokkurn tímann gerst áður í efstu deild hér á Íslandi og er lesendum frjálst að benda höfundi á annað.
Það var lesandi Karfan.is sem benti ritstjórninni á umfjöllun um þessa staðreynd á ólíklegasta stað í Morgunblaðinu – Víkverja – í blaðinu 20. nóvember sl.
Þar segir:
Í leiknum tók Woods 40 skot og 13 sóknarfráköst (11 af þeim fóru aftur í skot). Nánast öll þessi skot voru undir körfunni í miklum látum, en samt var aldrei brotið á honum. Woods fékk ekki eitt einasta víti í leiknum. Telur vinur Víkverja að líkur á því að við munum sjá þetta gerast aftur séu nánast engar. Að jafnaði taka menn þrjú skot á móti hverju víti, en það fer þó eitthvað eftir því hvaða stöðu menn spila. Woods tekur skot nálægt körfunni og á sínum skólaferli tók hann meira en eitt vítaskot á móti hverjum þremur skotum.
Félagi Víkverja ákvað að athuga hvort hann fyndi sambærileg tilfelli og viti menn. Hinn 30. janúar 1997 gerðist eftirfarandi: “Þetta er ein besta frammistaða Hakeems Olajuwons og metið í NBA í flestum stigum skoruðum án vítaskota.” Þetta kvöld tók Olajuwon 40 skot án þess að komast á vítalínuna og bendir félagi Víkverja á að enn þann dag í dag, 20.000 NBA-leikjum síðar, standi þetta met. “Til að sýna enn frekar fáránleika málsins þá kemur í ljós að þetta er eitt af ótrúlegri metum í NBA því í öðru sæti er smávaxinn bakvörður sem aldrei fór inn í teig en hann tók 32 skot utan af velli án þess að komast á vítalínuna, þ.e. hann tók 20% færri skot en Olajuwon,” segir félaginn. “Aðeins níu sinnum í sögu NBA hefur gerst að leikmaður hafi tekið 30 skot eða meira án þess að komast á vítalínu.”
Niðurstaða félaga Víkverja er þessi: “Ef við gefum okkur að þetta gerist aftur í ár í NBA, sem er frekar ólíklegt, þ.e. á 22.000 leikja fresti, þá má gera ráð fyrir því að þetta gerist aftur á Íslandi í deildarleik árið 2179, eða eftir rúm 166 ár.”
Ofangreindar staðreyndir gefa vitnisburð um annað hvort skelfilegan varnarleik andstæðinga Vals og Houston í þessum leikjum eða þá að dómarar leiksins hafi gleypt fautuna í hvert skipti sem þessi leikmenn snertu boltann.
Engu að síður, ótrúlegt “afrek” hjá þessum frábæru leikmönnum í ljósi þess að allan þann tíma sem Woods hefur spilað með Val hefur hann tekið 5,8 vítaskot í leik og Hakeem tók 6,2 í leik á öllum ferlinum.
Karfan.is hvetur ykkur lesendur til að finna eitthvað álíka dæmi í sögu íslensks körfubolta og benda okkur á því í allan þann tíma sem sá sem þetta ritar hefur fylgst með körfubolta man hann ekki eftir öðru eins.



