spot_img
HomeFréttirHurð skall nærri hælum KR-inga í Hellinum

Hurð skall nærri hælum KR-inga í Hellinum

Búast mátti við gestunum af toppnum vel einbeittum í Hertz-helli ÍR-inga í kvöld eftir fyrsta tapið gegn Grindavík í síðustu umferð. Heimamenn gerðu hins vegar góða ferð í höfuðstað Vesturlands á sama tíma. Þaðan tóku þeir með sér stigin tvö og mættu því brosmildir með hækkandi sól í hjarta til leiks.
 
 
Bæði lið voru án góðra leikmanna í kvöld. Helgi spilaði ekki fyrir KR-inga og Matthías var fjarri góðu gamni ÍR-megin. Það afsakar þó ekki afspyrnu dapra varnartilburði beggja liða í byrjun og í stöðunni 12-13 höfðu nánast allir liðsmenn beggja liða komið tuðrunni í gegnum netið. Heimamenn voru fyrri til að blása smá vilja og baráttu í varnarleikinn og komust í 24-19 með 12-4 kafla. Hjalti Friðriksson spilaði fantavel á þessum kafla og minnti á Udonis Haslem, silkimjúkur eins og vel nagað selskinn, einkum á ,,baseline“, og setti 8 stig í leikhlutanum. Staðan 24-21 eftir fyrsta.
 
Gestirnir áttu klárlega mikið inni en nenntu alls ekki að taka út, ekki strax í það minnsta. Varnarleikurinn var máttleysislegur og skotin vildu ekki niður. ÍR-ingar byrjuðu annan leikhluta mjög vel og allnokkrir lögðu í púkkið. Heimamenn komust í 32-23 eftir stórkostlegt ,,Lebron James-blokk“ frá Ragnari Braga í vörninni og 2 stig í hraðaupphlaupi í kjölfarið. Liðin skiptust svo á nokkrum körfum en í stöðunni 39-29 fór allt í baklás hjá heimamönnum. KR-ingar ákváðu að taka svolítið út í vörninni og refsa með snöggum stigum hinum megin og Martin Hermannsson fór fremstur í flokki í þeim málum. Þá brast á með athyglisverðum fyrirlestri frá Kidda Óskars, einum dómara leiksins, um svokallað ,,flopp“, en hann virtist einkum beinast að Magna, leikmanni KR. Athyglisvert – en gestirnir létu það ekki á sig fá og héldu áfram fínum leikkafla, skoruðu tíu stig gegn þremur á síðustu þremur mínútum leikhlutans og leiddu með einu stigi, 42-43 í hálfleik.
 
Þriðji leikhluti var frekar undarlegur. Það var engu líkara en að liðin væru einna helst í einhvers konar ,,turnover“ keppni. Liðin skiptust á að tapa boltanum eða skora og jafnt var á öllum tölum. Þó er alltaf eitthvað sem gleður augað í þessari fögru íþrótt og Brilli átti mjög góðan leikhluta, smellti nokkrum fallegum þristum og ,,and1“-körfum. Hjá ÍR var það ekki síst Borgnesingurinn snjalli, Björgvin, sem svaraði að bragði fyrir heimamenn. Að leikhlutanum loknum hafði engin breyting átt sér stað, 63-64, jafntefli í ,,turnover-keppninni“.
 
Fjórði leikhluti var æsispennandi og skemmtilegur. Sveinbjörn ,,Klassi“ Claessen og Óli Ægis tóku upp á því að hefja leikhlutann á þriggja stiga skotkeppni. Skiptust þeir á að raða þeim allnokkrum niður en eftir ,,and1“ til viðbótar hjá KR höfðu gestirnir undirtökin, 69-75. Heimamenn bitu frá sér og minnkuðu bilið í 76-77 skömmu síðar með ógurlegum þrist frá Hjalta. Klassi var ekkert hættur fyrir utan og jafnaði í 79-79 og rúmar 3 eftir. Þegar 1:30 lifðu leiks virtust svo taugarnar eitthvað vera að hrekkja heimamenn, sóknarleikurinn ráðleysislegur á meðan Martin setti 4 góð stig, staðan 80-84. Klassi braut svo ísinn með enn einni þriggja stiga körfunni, tæp mínúta var eftir og staðan 83-84! KR-ingar tóku upp á því að henda svo boltanum útaf í næstu sókn er 24 sekúndur og eitt sekúndubrot lifði leiks. Nigel Moore fékk ágætt tækifæri til að setja sigurkörfuna en skotið geigaði. Lokatölur 83-85 eftir víti frá Brilla.
 
ÍR-ingar eiga hrós skilið fyrir mikla baráttu og áttu skilið að fá eitthvað út úr þessum leik. Allir skiluðu góðri varnarvinnu en sóknarlega var Sveinbjörn í sérflokki, setti 23 stig og skoraði þegar mest á reyndi. Spurning hvort hann hefði ekki átt að fá lokaskotið? Hjalti Friðriksson var einnig frábær, skoraði 21 stig og barðist eins og ljón. Hjá gestunum var Brynjar stigahæstur með 17 stig og tók 6 fráköst, Martin skoraði 16, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Terry setti einnig 16 stig. KR-ingar hafa svo sannarlega átt betri daga en stigin tvö úr þessum leik fara með þeim í Vesturbæinn, spilamennskan má hins vegar falla í gleymskunnar dá.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -