spot_img
HomeFréttirHugleiðing um framtíð kvennakörfunnar á Íslandi

Hugleiðing um framtíð kvennakörfunnar á Íslandi

Ég er búin að pirra mig svo oft á því hvað mér finnst vera mikið skilningsleysi á kvennakörfubolta á Íslandi að ég ákvað að kafa aðeins dýpra ofan í tölfræði tengda liðunum sem hafa verið skráð til keppnis undanfarin ár. Ég verð að viðurkenna að ég vissi að kvennastarfið hefði verið á niðurleið síðustu ár en þegar ég sá þetta svart á hvítu þá var þetta mun meira sláandi en ég hélt þetta yrði.

Fækkun liða í kvennakörfunni síðastliðin 3 tímabil

Tímabilið 2014-2015 voru 8 lið skráð í Úrvalsdeild kvenna
Breiðablik, Keflavík, Grindavík, KR, Hamar, Snæfell, Valur, Haukar

Í 1.deild kvenna sama tímabil (2014-2015) voru 7;
KFÍ (Vestri), Njarðvík, Stjarnan, FSu/Hrunamenn, Þór Akureyri, Fjölnir, Tindastóll

Þetta tímabil voru kvennaliðin á landinu 15.

Tímabilið 2013-2014 voru svo þar að auki Laugdælir með lið í 1.deild kvenna og einnig var Grindavík b með lið þar.

Í fyrra (tímabilið 2015-2016) voru 7 lið í Úrvalsdeild kvenna þegar KR ákvað að draga lið sitt úr keppni í Úrvalsdeild og spila í 1. deild í staðinn. Liðunum í 1. deild kvenna fækkaði úr 7 niður í 6; samtals 13 kvennalið.

Núna í ár (tímabilið 2016-2017) eru aftur 8 lið í Úrvalsdeild en liðin í 1. deild eru aftur á móti komin niður í 4. Hamar hætti með lið í Meistaraflokk kvenna og fékk Njarðvík sæti þeirra í Úrvalsdeild auk þess sem Skallagrímur vann sig upp úr 1. deild.

Tímabilið 2014-2015 voru spilaðir 42 leikir í stúlknaflokk, 30 í unglingaflokk, 42 leikir í 1. deild kvenna og 120 leikir í úrvalsdeild (séu úrslitakeppnir og bikarkeppnir ekki taldar með) Samtals 234 leikir.

Tímabilið sem er núna (2016-2017) verða spilaðir 72 leikir í unglingaflokk, 120 í úrvalsdeild og 24 leikir í 1. deild. (úrslita- og bikarkeppnir ekki taldar með)

Samtals 216 leikir.

Leikjum hefur fækkað um næstum 20 og í rauninni meira þar sem að það er búið að fella niður Lengjubikarinn líka.

Tímabilið 2014-2015 voru skráð 28 kvennalið í efstu flokkunum (stúlkna-, unglinga-, og meistaraflokk).
Tímabilið 2016-2017 eru þau bara 21 í sömu flokkum.

Þetta er svoleiðis þvílíka afturförin að það er eiginlega bara mjög sorglegt að skoða það. Hamar, FSu/Hrunamenn, Vestri, Tindastóll og Laugdælir eru öll búin að leggja niður meistaraflokks kvenna liðin sín og einungis Skallagrímur hefur stofnað kvennalið á síðustu 2 árum.

Lið eins og KR, með allan þann metnað og pening sem settur er í karlastarfið, hefur tvisvar sinnum neitað að taka eða gefið frá sér sæti sem þeim hefur boðist í Úrvalsdeild kvenna á síðustu 2 árum. Breiðablik hefur einnig gert það einu sinni.

Getumunur á 1. deild og Úrvalsdeild

Einhverjir vilja eflaust halda því fram að það sé mikill munur á liðunum í 1.deild og liðunum í Úrvalsdeild getulega séð en ef horft er á úrslit úr bikarleikjum á milli liða í Úrvalsdeild og 1.deild þetta tímabilið þá voru 2 af 3 leikjum frekar jafnir.

Stjarnan – Þór Akureyri
Eftir að hafa horft á þann leik með eigin augum og séð lið Stjörnunnar sem er eins og stendur í 4. sæti í Úrvalsdeild og lið Þórs Akureyri sem er í 1. sæti í 1.deild þá get ég fullyrt það að munurinn á liðunum var Danielle Rodriguez, atvinnumaður Stjörnunnar. Jú jú Stjarnan vann leikinn og var munurinn 18 stig undir lokin en jafnt var í hálfleik og 39 stig (í 78% skotnýtingu), 13 fráköst, 10 stoðsendingar og 7 stolnir boltar atvinnumannsins var það sem skyldi þessi tvö lið að.

Breiðablik – Haukar
Haukar mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik (unnu hann með 24stigum) en Breiðablik sterkari aðilinn í seinni hálfleik (unnu hann með 16 stigum). Bæði lið spiluðu leikinn án erlends leikmanns en það sást greinilega í leiknum að munurinn á liðunum var alls ekki mikill. Leikurinn endaði með 8 stiga sigri Hauka, 63-71.

Svo að nú spyr ég.
Hvað á leikmaður sem getur kannski alveg fullt í körfubolta en er ekki að fá að spila í 1. deild kvenna að gera þegar að í liðinu eru kannski 10-15 aðrar stelpur sem eru betri?

Hvað á leikmaður sem er ekki að fá að spila í Úrvalsdeild kvenna vegna sömu ástæðu? Það er t.d. ekkert lið í 1. deildinni eins og staðan er núna þar sem er þörf fyrir stelpur á Venslasamning. Það er 1 leikmaður úr Úrvalsdeild kvenna sem spilar á Venslasamning þetta tímabilið (2016-2017) vegna þess að það er einfaldlega ekki þörf fyrir þær. 1. deildin er mjög sterk og þar að auki bara 4 lið þar.

Sameining unglingaflokks og stúlknaflokks
Fyrir þetta tímabil var ákveðið að fella niður Stúlknaflokk, henda 1996 árganginum úr Unglingaflokk og sameina stelpur fæddar 1997, 1998, 1999 og 2000 í einn flokk, Unglingaflokk. Með þessu þarf ekki nema 3 stelpur úr hverjum árgangi til þess að fylla heilt lið… Hvað með stelpur sem eru kannski yngri (fæddar 1999 og 2000) og óreyndari, kunna minna en hinar sem spila kannski með Meistaraflokk og koma úr félögum þar sem að Unglingaflokks liðið er orðið fullt þó það sé bara tekið inn 1997, 1998 og 1999? Nú fyrir er brottfall unglingsstúlkna í íþróttum á þessum árum þegar grunnskólinn er búinn og menntaskólinn tekur við mjög hátt og ég sé þetta fyrirkomulag ekki vera að fara hjálpa neitt til með það, frekar vinna á móti því.

Á næsta ári verða reyndar bara 1999, 2000 og 2001 árgangarnir í unglingaflokk. Það þýðir það að stelpur fæddar 1997 og 1998 (það sem gerðist fyrir stelpur fæddar 1996 núna) sem margar hverjar hafa verið að fá lykilhlutverk í unglingaflokk en eru kannski að spila sáralítið í meistaraflokkunum og jafnvel ekki neitt missa þær mínútur og leikreynslu sem þær hefðu annars verið að fá.

Þegar borið er saman hversu margir leikir voru spilaðir samtals í stúlknaflokk og unglingaflokk tímabilið 2014-2015 þá voru þeir leikir 74 (úrslitaleikir og bikarkeppni ekki með í þessari tölu). Þegar horft er á þennan nýja sameiginlega flokk (unglingaflokk) þetta tímbilið þá verða 72 leikir spilaðir í honum á þessu tímabili ef ekki eru taldar með úrslita- og bikarkeppni. Er þetta breyting sem var þá þess virði? Verður þetta ekki bara til þess að þær sem eru yngri og óreyndari fá minni reynslu af því að spila við sína jafningja? Eitthvað lið kannski með efnilegan 2000 árgang en ekki margar úr eldri árgöngunum og þurfa að spila á móti stelpum sem eru 3 árum eldri og kannski byrjunarliðsmenn í Meistaraflokk?

Ég skil svosem margt sem var sett fram sem rök fyrir því að sameina þessa 2 flokka en eftir að hafa skoðað rökin hérna fyrir ofan þá bara trúi ég því ekki að þetta sé það besta til frambúðar fyrir kvennakörfubolta á Íslandi.

Mannskapur vs. möguleikar
Samkvæmt KKÍ þá eru þetta tölurnar yfir það hversu margar stelpur eru skráðar í hvert lið í Meistaraflokk Kvenna þetta tímabilið

KR – 19 stelpur

Fjölnir – 20

Þór Akureyri – 13

Valur – 12

Haukar – 15

Snæfell – 16

Njarðvík – 23

Skallagrímur – 15

Stjarnan – 16

Grindavík – 20

Keflavík – 16

Breiðablik – 17

Samtals: 202

Á þessum listum eru samt pottþétt einhverjar hættar en samt sem áður lítur þetta út fyrir að staðan sé orðin þannig að liðin eru mörg hver yfirfull af mannskap sem lítil eða engin hlutverk eru fyrir. Það sé erfitt að keppast um mínútur og á einhverjum stöðum eru stelpur í liðunum sem ná ekki einu sinni inn í 12 manna hóp. Ekki misskilja, mér finnst frábært að lið séu með stóra æfingahópa en ég held að það séu svo miklu fleiri stelpur sem myndu vilja æfa ef það væru fleiri lið um að velja að spila með.

Kvennaliðin á landinu eru 12 þetta tímabilið sem þýðir að það er pláss fyrir 144 stelpur í liðunum. Miðað við þessar tölur (veit reyndar að þær eru alls ekki heilagar) eru 58 stelpur sem ná ekki einu sinni í lið í sínum meistaraflokk. Þessar 58 stelpur er nægur mannskapur í meira en 4 heil (12 manna) lið.

Er hægt að taka framförum á því einungis að æfa og spila ekkert?

Tölum núna aðeins um mig og mína stöðu. Núna flakka ég á milli þess að vera 10-15. maðurinn í mínu liði í Meistaraflokki kvenna en liðið er eins og stendur í 2. sæti í 1. deild kvenna. Ég er fædd 1996 þannig að ég fékk ekki að spila með Unglingaflokk í vetur. Ég er með eins og stendur 01:16 mínútur að meðaltali í spilatíma í leik í vetur og hef bara komið við sögu í 2 leikjum (fyrir utan 2 leiki við Keflavík b en þeir skráðu sig úr keppni svo sú tölfræði er ekki fáanleg). Ég er búin að eyða 271 mínútu á tréverkinu í vetur. Ég er ekkert sérstaklega léleg í körfubolta, þær sem eru með mér í liði eru bara svo miklu betri en ég. Það er líka ekkert bara liðið mitt, heldur er 1. deildin í heild sinni bara mjög sterk mönnuð. Þó svo ég færi í liðið sem er í neðsta sæti í 1. deild væri ég ekki að fara fá mikið meiri spilatíma þar en ég er nú þegar með.

Ég hef ekkert verið að taka neinum gífurlegum framförum í vetur. Ég held samt alveg að það sé hægt að taka framförum án þess að spila neitt heldur bara æfa, en bara upp að ákveðnu marki. Á einhverjum tímapunkti þarf manni að vera treyst fyrir því að spila alvöru leik og æfast í því að spila undir ákveðinni pressu og á því “tempói” sem er í alvöru leik.

Það getur svosem vel verið að það séu bara ég og hinar 4 í liðinu mínu (10.-15. menn) sem erum að upplifa þetta en ég trúi því samt ekki. Ég held það séu fleiri stelpur í fleiri liðum að upplifa þetta sama.

Svo möguleikarnir mínir og þeirra í sömu stöðu eru þeir:
Sætta mig við þetta, reyna að bæta mig  og halda áfram að æfa án þess að fá spilatíma
Gefast upp á þessu, æfa “bumbubolta” 1-2x í viku og spila í B-deildinni
Hætta bara alveg í körfubolta
Vonast til þess að liðin sem “geta” stofnað kvennalið gyrði sig í brók og fari að skoða málin og þá mögulega skipta um lið

Það er rosalega leiðinlegt að sjá hvað þessu er að fara aftur, liðum sé að fækka og út frá því hlýtur mannskapnum að vera fækka líka. Maður hugsar líka svo oft út í það hvað maður myndi gera ef þetta væri öðruvísi, hvort að ef maður væri í lélegra liði hvort maður væri kannski að fá einhvern spilatíma og taka meiri framförum? Fá smá ábyrgð setta á herðarnar á sér og þurfa að vera leiðtogi inná vellinum en ekki bara á bekknum. Það er rosalega leiðinlegt að vera í þeirri stöðu, að vera komin eins neðarlega og hægt er að vera en vera samt langt því frá nógu góður (þegar maður er ekki lélegri en ég er) til að fá eitthvað að “hlutverk” inná vellinum.

Tímabilið 2016-2017 verða spilaðir 24 leikir í 1. deild kvenna að úrslitakeppni og bikarkeppni undanskildum. Þrátt fyrir að það sé spiluð fjórföld umferð.
Tímabilið í fyrra (2015-2016) voru spilaðir 62 leikir í deildinni í fjórfaldri umferð og tímabilið 2014-2015 voru þeir 42 í tvöfaldri umferð.

Ég er alveg viss um það að ef það yrðu stofnuð fleiri kvennalið á næsta tímabili þá væru margar sem tæku fram skóna aftur. Ég held það yrðu einhverjar sem myndu vilja fara á Venslasamning frá sínu Úrvalsdeildarliði í eitthvað 1. deildar lið. Ég er líka viss um að einhverjar stelpur sem hafa ekki verið að fá að spila í sínu liði myndu taka sénsinn og prófa að skipta um lið, auk þess að einhverjar myndu eflaust vilja spila með uppeldisfélaginu sínu.

Svo núna þá skora ég á lið eins og Tindastól sem teflir fram sterkum unglingaflokk kvenna, var með fínt lið í 1. deildinni tímabilið 2014-2015 með þeim nánast einungis þeim mannskap sem spilar í unglingaflokknum núna, að íhuga það vel að skrá lið í 1. deildina á næsta tímabili.

Lið eins og Ármann og Vestri sem eru með flott yngri flokka starf hjá stelpum og ættu að skoða sína möguleika á því að skrá lið í 1. deild kvenna en bæði þessi lið tefla fram liðum í 1. deild karla.

ÍR sem á fínt karlalið í Úrvalsdeild, hefur verið að byggja upp yngri flokka starf hjá stelpum og er staðsett á höfuðborgarsvæðinu sem er stór kostur.

Síðast en ekki síst Hamar/Hrunamenn/FSu sem tókst að tefla fram liðum í bæði Úrvalsdeild og 1. deild kvenna tímabilið 2014-2015 en eru núna ekki með neitt lið skráð til keppnis í meistaraflokk kvenna. Ég skora á þá að hysja upp um sig buxurnar, leggja aðeins á sig og endurvekja liðið.

Gaman væri að fá að vita hver stefna Körfuknattleikssambandsins er varðandi framtíð kvennakörfunnar á Íslandi en það virðist ekki vera til (allavega ekki á heimasíðunni) stefna varðandi þetta málefni því þetta er eitthvað sem þarf virkilega að skoða.

Hlín Sveinsdóttir

Myndir/ Karfan.is – Frá NM yngri landsliða í Finnlandi og á neðri mynd stíga Haukakonur dans eftir bikarsigur í Laugardalshöll.

 

Fréttir
- Auglýsing -