spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaHuggulegur heimasigur eftir jafnan fyrsta leikhluta

Huggulegur heimasigur eftir jafnan fyrsta leikhluta

Það bjuggust fæstir við jöfnum leik í Ásgarði í kvöld þegar að heimakonur í Stjörnunni fengu nýliða Ármanns í heimsókn. Stjörnukonur höfðu unnið síðustu tvo leiki sína en Ármenningar höfðu haft einn sigur upp úr fyrstu leikjum sínum og sá var gegn Hamar/Þór.

Flestum að óvörum var fyrsti leikhluti nokkuð jafn og gestirnir höfðu í fullu tré við heimakonur sem voru að fara illa með góð færi og opin skot. Það reyndist þó vera skammgóður vermir því að um leið og skotin fóru að falla þá jókst munurinn milli liðanna. Stjörnukonur gengu á lagið og þegar að hálfleiksflautan gall voru höfðu þær komið muninum nálægt tuttugu stigum en staðan í hálfleik var 55-34.

Í síðari hálfleik var aldrei spurning um hvort liðið myndi bera sigur úr bítum enda hélst munurinn nokkurnveginn sá sami í gegnum allan seinni hálfleikinn og að lokum höfðu heimakonur sigur 103-81 í leik sem var aldrei spennandi.

Diljá Ögn Lárusdóttir komst auðveldlega í sínar stöður allan leikinn og lauk leik með 29 stig í annars ágætlega jöfnu liði Stjörnukvenna. Hjá Ármann var Khiana Johnson stigahæst með 20 stig.

Eftir að hafa byrjað deildina dálítið hægt hefur Stjarnan nú unnið þrjá sigra í röð, en þær sitja nú í 7. sætinu með þrjá sigra og fjögur töp. Ármann er sæti neðar en þær, í 8.-9. sætinu með aðeins einn sigur í fyrstu sjö umferðunum.

Nú tekur við landsleikjahlé hjá deildinni, en eftir það mun Ármann taka á móti Njarðvík þriðjudag 22. nóvember, en Stjarnan heimsækir Íslandsmeistara Hauka degi seinna miðvikudag 23. nóvember.

Tölfræði leiks

Stjarnan: Diljá Ögn Lárusdóttir 29/5 fráköst, Berglind Katla Hlynsdóttir 18/6 fráköst, Eva Wium Elíasdóttir 13/7 fráköst/6 stoðsendingar, Shaiquel McGruder 13/9 fráköst/3 varin skot, Heiðrún Björg Hlynsdóttir 8/5 fráköst, Inja Butina 7, Eva Ingibjörg Óladóttir 4, Sigrún Sól Brjánsdóttir 3, Bára Björk Óladóttir 3, Fanney María Freysdóttir 3, Greeta Uprus 2, Ingibjörg María Atladóttir 0.


Ármann: Khiana Nickita Johnson 20/7 stoðsendingar, Dzana Crnac 18, Nabaweeyah Ayomide McGill 16/10 fráköst, Jónína Þórdís Karlsdóttir 14/7 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 8/5 fráköst, Aníka Linda Hjálmarsdóttir 5, Ísabella Lena Borgarsdóttir 0, Þóra Birna Ingvarsdóttir 0, Auður Hreinsdóttir 0, Rakel Sif Grétarsdóttir 0, Brynja Benediktsdóttir 0/4 fráköst, Sigríður Ása Ágústsdóttir 0.

Fréttir
- Auglýsing -