spot_img
HomeFréttirHrunamenn og Flaggskipið skiptu sigrunum bróðurlega á milli sín

Hrunamenn og Flaggskipið skiptu sigrunum bróðurlega á milli sín

Hrunamenn og Vestri-b, betur þekkt sem Flaggskipið, mættust á Flúðum á helginni í tveimur leikjum í 3. deild karla.

Laugardagur 19. janúar: Hrunamenn 95 – 94 Vestri-b

Gangur leiksins
Fyrri leikurinn fór fram á laugardaginn kl 16:00. Eftir að hafa lent 7-12 undir í byrjun leiks skoruðu Hrunamenn 11 stig í röð og komust í 18-12. Þeir héldu forustunni áfram í öðrum leikhluta þangað til Vestramenn skoruðu 10 stig í röð og náðu 35-39 forustu. Adam var þó ekki lengi í paradís því heimamenn skoruðu 12 síðustu stig leikhlutans og fóru með 47-39 forustu inn í hálfleik.

Hrunamenn héldu áfram að bæta í í þriðja leikhluta og náðu mest 18 stiga forustu, 63-45. Guðmundur Auðunn Gunnarsson hrökk þá í gang fyrir Vestra og setti niður fjóra þrista á lokamínútum leikhlutans og minnkaði muninn í 72-62 fyrir byrjun fjórða. Í loka leikhlutanum hófu Vestramenn mikið áhlaup þar sem þeir settu niður 6 þrista, en alls settu þeir 20 slíka í leiknum, og náðu muninum niður í 1 stig, 95-94. Eftir að Hrunamenn brenndu á tveimur vítum þá áttu Vestramenn séns á sigri en lokaskot þeirra vildi ekki detta.

Áfallið
Vestri-b varð fyrir gífurlegu áfalli í lokasókninni þegar Baldur Ingi Jónasson sleit hásin og því ljóst að hann hefur spilað sinn síðasta leik í vetur. Baldur hefur verið einn besti leikmaður Vestra-b í vetur en hann hefur skorað 16.6 stig auk þess sem hann hefur sett niður 4.4 þriggja stiga körfur að meðaltali í leik í deild og bikar.

Helstu stigaskorarar
Eyþór Árnason skoraði 20 stig fyrir Hrunamenn á meðan Aron Ragnarsson bætti við 17 stigum. Elís Arnar Jónsson skoraði 13 stig og Orri Ellertsson skoraði 12.

Hjá Vestra-b var Guðmundur Auðunn Gunnarsson sjóðandi heitur en hann setti niður 9 þrista og skoraði 29 stig samtals. Haukur Hreinsson var einnig á skotskónum og setti 24 stig, Baldur Ingi var með 17 og Jóhann Jakob Friðriksson skoraði 11 stig.

Sunnudagur 20. janúar: Vestri-b 78 – 75 Hrunamenn

Gangur leiksins
Vestramenn mættu með nýtt lið á sunnudeginum, í bókstaflegri merkingu enda var helmingurinn af hópnum þeirra ekki með deginum áður. Fersku lappirnar hjálpuðu til því Vestramenn byrjuðu leikinn talsvert betur og skoruðu 9 af fyrstu 11 stigum leiksins. Hrunamenn rönkuðu þó aðeins við sér og náðu að jafna í byrjun annars leikhluta áður en gestirnir fóru aftur á flug en staðan í hálfleik var 28-39 Vestra í vil.

Arfaslök vítanýting Vestra framan af gaf þó heimamönnum færi á að koma sér aftur inn í leikinn, en Vestri nýtti einungis 9 af fyrstu 22 vítunum sínum. Minnst ná Hrunamenn muninum niður í 2 stig áður en Vestramenn, loksins orðnir heitir, klára leikinn af vítalínunni með því að setja niður 9 síðustu víti sín.

Helstu stigaskorarar
Gunnlaugur Gunnlaugsson leiddi B-liðið í stigaskorun með 19 stigum en Helgi Bergsteinsson kom næstur með 17 stig. Guðmundur Auðunn bætti við 12 stigum og Haukur Hreinsson setti 11 stig.

Hjá Hrunamönnum var Eyþór Árnason stigahæstur með 14 stig og Aron Kárason kom næstur með 13 stig. Bjarni Bjarnason og Halldór Helgason bættu báðir við 12 stigum og Orri Ellertsson skoraði 10 stig.

Hvað er næst?
Eftir leikina eru liðin jöfn í 4-6. sæti ásamt Þór Akureyri-b með 6 stig eftir 7 leiki. Vestri-b á næst tvo leiki við Þór á Akureyri á meðan Hrunamenn mæta ÍR-b næstkomandi föstudag.

Fréttir
- Auglýsing -