spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn lögðu Snæfell á Flúðum

Hrunamenn lögðu Snæfell á Flúðum

Í kvöld höfðu Hrunamenn sigur á Snæfellingum í hörkuleik á Flúðum. Heimamenn skoruðu 76 stig gegn 70 stigum gestanna.

Öflugur varnarleikur einkenndi leikinn á fyrstu mínútunum en svo tókst liðunum að opna varnirnar og skora hvert hjá öðru. Hrunamenn leiddu allan leikinn en forskotið varð ekki meira en 3-6 stig utan einu sinni undir lok annars fjórðungs þegar munurinn varð mestur 14 stig. Hrunamönnum tókst betur en í undanförnum leikjum að finna finnska miðherjann Aleksi Liukko undir körfunni og honum tókst yfirleitt að skila boltanum annað hvort í körfuna eða í hendur samherjanna aftur. Chance Hunter tók meiri þátt í samspili liðsins en hann hefur gert undanfarið og lagði sig fram um að spila góða vörn. Varnarleikur alls liðsins var prýðilegur. Þar gaf Arnar Dagur Daðason tóninn með hæfilegri ákefð og hreyfanleika. Hinir Hrunamennirnir fylgdu í hans fótspor og gáfu ekkert eftir. Arnar Dagur hafði góðar gætur á fyrrum liðsfélaga sínum í Hamri, Eyþóri Lár Bárðarsyni og Eyþór Lár tók vel á honum á móti.

Sóknarleikur Hrunamanna hökkti nokkuð í upphafi seinni hálfleiks þegar Snæfell beitti 2-3 svæðisvörn með hinn leikreynda Svein Davíðsson í miðjunni. Snæfell náði að saxa á forskotið sem Hrunamenn höfðu náð en tókst þó aldrei að jafna leikinn því Hrunamenn léku ágæta vörn þótt sóknin skilaði þeim litlu í þessum hluta leiksins.

Jaeden King var frábær í liði Snæfells. Hæfileikar hans er miklir. Hann hefur ekki bara gott skot heldur eru hreyfingar hans allar svo réttar og tilfinning hans fyrir því hvar varnarmaðurinn sem gætir hans er staðsettur verður til þess að hann getur einhvern veginn alltaf refsað honum og komist fram hjá honum. Leikstíll Snæfellsliðsins snýst ekki eingöngu um það að losa Jaeden King úr gæslu og finna staði fyrir hann til að ráðast á vörn andstæðingsins, samt enda sóknir liðsins venjulega með því að Jaeden tekur skot og oftar en ekki skorar hann. Hann skoraði 24 stig í fyrri hálfleik og í leikslok voru stigin hans orðin 42. Sam Burt, sem lék með Hrunamönnum á síðustu leiktíð, var með 10 stig. Eyþór Lár náði sér ekki á strik í sókninni en hann varðist feykivel og það sama má segja um Svein. Ólafur Birgir Kárason steig upp í seinni hálfleik og lék ágætlega fyrir Snæfell.

Friðrik Heiðar, leikmaður Hrunamanna, kom til baka í þessum leik úr meiðslum sem hafa haldið honum frá keppni í nokkrar vikur. Hann er greinilega ekki alveg búinn að ná sér en á líklega stutt í land. Chance  og Aleksi voru atkvæðamesti heimamanna og voru drjúgir á báðum endum vallarins, tóku fjölda frákasta að vanda og skoruðu 26 og 25 stig.

Myndasafn (Brigitte Brugger)

Fréttir
- Auglýsing -