spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn lögðu Ármann á Flúðum

Hrunamenn lögðu Ármann á Flúðum

Hrunamenn unnu í kvöld 10 stiga sigur á liði Ármanns úr Reykjavík 93-83, leikið var á Flúðum. Leikurinn var frekar hægur til að byrja með og leikmenn liðanna voru meira eins og að þeir væru að dunda sér á skotæfingu en að þeir væru þátttakendur í íþróttakappleik. Heimamenn brutu t.a.m. ekki nema tvisvar af sér í fyrsta fjórðungi. Amhad Gilbert, fann sig ágætlega í þessu tempói leiksins og lék vel fyrir Hrunamenn og þótt sjálfsagt hefðu liðsfélagar hans þegið að fá að snerta boltann oftar en þeim gafst færi á hljóta þeir að hafa glaðst að sjá boltann hvað eftir annað ofan í körfunni eftir skot þessa öfluga leikmanns og stigum liðsins fjölga á stigatöflunni. Í 2. fjórðungi sendi Konrad Tota ferska fætur á völlinn en í þetta skiptið fékk hann lítið framlag af bekknum. Ármenningar sendu hins vegar Hrunamanninn í þeirra liði, Halldór Fjalar Helgason, á völlinn og hann leiddi Ármannsliðið áfram í áhlaupi sem stóð allt til enda fjórðungsins og munurinn var ekki nema 3 stig í leikhléinu.

Í fyrstu sóknum Hrunamanna í seinni hálfleiknum gekk boltinn manna á milli, hann fór inn í teiginn og út aftur, inn á ný og svo fram eftir götunum. Þetta góða flæði færði liðinu bæði þægilegt forskot og sjálfstraust. Friðrik Heiðar var mjög líflegur á þessum kafla og stemmning færðist í varnarleikinn sem varð til þess að Ármenningarnir hittu illa úr skotunum sínum og heimamenn náðu öllum fráköstum. Ármenningar náðu vopnum sínum aftur þegar þeir tóku stjórn á hraða leiksins og keyrðu hann upp. Þá hafði Ólafur þjálfari sent Hjört Kristjánsson á völlinn sem réð vel við hraðann og skaut óhræddur á körfuna. Á sama tíma tók Snjólfur Björnsson þá ábyrgð að verða leiðtogi liðs síns og stýrði traffíkinni. Hann hefur bersýnilega góðan skilning á leiknum. Aftur náðu Ármenningarnir að minnka muninn niður í þrjú stig.

Lokafjórðungurinn var jafn þar til um 4 mínútur voru eftir af leiknum þegar Hrunamenn tóku forystuna og léku þá svæðisvörn sem Ármenningar náðu ekki að brjóta á bak aftur.

Snjólfur og Kristófer voru góðir í Ármannsliðinu, Halldór Fjalar átti góða innkomu í fyrri hálfleik og Hjörtur í þeim seinni. William Thompson skilaði ágætu framlagi og Illugi Steingrímsson líka. Hjá Hrunamönnum voru Ahmad Gilbert og Sam Burt bestir, Friðrik Heiðar var líka góður og Eyþór stóð fyrir sínu í vörn og sókn. Það gekk heldur illa í þetta skiptið hjá leikmönnum sem komu af bekknum að komast í takt við leikinn.

Vert er að minnast á frammistöðu dómara leiksins sem var athyglisverð. Dómararnir, Hjörleifur og Davíð Kristján, höfðu þannig tök á leiknum að maður tók varla eftir þeim. Það hlýtur að vera góðs viti.

Hrunamenn sækja Þórsara heim á Akureyri strax eftir helgina í leik sem þurfti að fresta vegna ófærðar um daginn. Í næstu uferð leika þeir svo gegn Fjölni í Reykjavík og Ármenningar mæta Álftnesingum.     

Myndasafn (Brigitte Brugger)

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -