spot_img
HomeFréttir(H)rós í hnappagat KKÍ

(H)rós í hnappagat KKÍ

8:57

{mosimage}

Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði í gær undir dálknum Á vellinum sem er ákaflega jákvæð og skemmtileg fyrir körfuboltann.

GRASRÓTIN í körfuknattleikshreyfingunni á Íslandi hefur á undanförnum árum aðstoðað við að koma upplýsingum á framfæri um gang mála í leikjum í efstu deildum í karla og kvennaflokki.

Frumkvöðlar úr röðum KKÍ hafa í gegnum tíðina verið óhræddir við að takast á við stór verkefni á borð við skráningu tölfræðiþátta í hverjum einasta leik í efstu deild karla og kvenna.

Þessar upplýsingar hafa síðan legið fyrir á heimasíðu KKÍ skömmu eftir leikina og allt er þetta gert í sjálfboðavinnu.

Og nýverið tók KKÍ enn eitt risaskref í miðlun upplýsinga á netinu. Um miðjan síðasta mánuð tók KKÍ notkun nýtt mótakerfi sem uppfyllti kröfur sambandsins. Gamla mótakerfið var komið til ára sinna og uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru. Samið var við fyrirtæki frá Litháen sem hefur á undanförnum starfað fyrir alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, og var KKÍ því ekki að finna upp hjólið í þessu samhengi.

Bylting
Kerfið sem um ræðir ber nafnið SmartStat/CMS og er frá fyrirtækinu MBT. Þetta kerfi er í notkun m.a. á Spáni, Litháen, Finnlandi, Slóveníu og fleiri lönd munu bætast í hópinn á næstu misserum.
Með nýja mótakerfinu getur grasrótin í körfuknattleikshreyfingunni miðlað upplýsingum beint frá keppnisstöðunum og er óhætt að segja að um byltingu sé að ræða.

Kerfið var prófað í fyrsta sinn hinn 18. mars sl. og vissulega voru nokkrir hnökrar á fyrstu leikjunum sem voru í „beinni“ útsendingu á vef KKÍ. Frá þeim tíma hefur þekkingin aukist á nýja kerfinu og á allra síðustu dögum hefur þetta nýja kerfi sannað tilverurétt sinn svo um munar. Á undanförnum vikum hafa margir spennandi leikir farið fram í úrslitakeppni karla og kvenna, auk úrslitaleikja í 1. deild karla. Boðið hefur verið upp á beinar lýsingar frá þessum leikjum í gegnum nýja mótakerfið og er óhætt að segja að vel hafi tekist til.

Spenna við tölvuna
Sá sem þetta ritar sat sem „límdur“ fyrir framan tölvuskjáinn þegar FSu tryggði sér sæti í úrvalsdeild að ári í þriðja úrslitaleiknum gegn Val. Sá leikur var í „beinni“ útsendingu á vef KKÍ þar sem að allar nauðsynlegar upplýsingar runnu yfir skjáinn. Vissulega er hraðinn mikill á meðan leikirnir standa yfir og eflaust eru rangar upplýsingar slegnar inn af og til. En það skiptir engum máli ef það er lagfært í leikslok. Og það er spennandi að bíða eftir „nýjustu“ tölum úr leikjunum sem detta  sjálfkrafa inn í mótakerfið.

Ég óska grasrótinni, sjálfboðaliðunum og körfuknattleikshreyfingunni til hamingju með þetta frábæra mótakerfi sem opnar nýjar víddir í miðlun upplýsinga frá kappleikjum.

 

Íslandsmeistaralið KR í körfuknattleik karla féll óvænt úr leik í 8 liða úrslitum Iceland Expressdeildarinnar gegn ÍR á fimmtudag í síðustu viku. KR-ingar eru eflaust enn að sleikja sárin en þeir geta verið stoltir af þeirri umgjörð sem forsvarsmenn félagsins og grasrót félagsins hefur búið til á  undanförnum misserum. KR-TV er dæmi um þrekvirki sem hvílir á herðum fárra. KR-ingar tóku þá ákvörðun að sýna beint frá leikjum karlaliðsins og var hægt að nálgast þá útsendingu á netinu. Myndgæðin og upptakan frá leikjunum var vissulega ekki eins og á „atvinnusjónvarpsstöðvunum“ en viljinn var fyrir hendi.

Þeir sem lýstu leikjunum voru langt frá því hlutlausir og leyndu því ekki að KR-hjartað sló í þeirra lýsingum. Og það er ekki hægt að kvarta yfir þessum atriðum.

„Reddum þessu“    
KR-ingar nýttu sér brautryðjendastarf sem önnur félög höfðu unnið á þessu sviði. Breiðablik í Kópavogi reið á vaðið í beinum sjónvarpsútsendingum á netinu og KFÍ á Ísafirði fylgdi síðan í kjölfarið. Önnur félög hafa síðan þróað ýmsar aðferðir við að koma upptökum frá sínum liðum á netið og er mikil gróska á þessu sviði hjá íslenskum liðum.

Það er ánægjulegt að sjá hve mikill kraftur er í upplýsingamiðlun hjá körfuknattleikshreyfingunni og þar á bæ bíða menn ekki eftir því að hlutirnir séu gerðir fyrir þá. Menn „redda“ sér sjálfir.

Sigurður Elvar Þórólfsson

Mynd: Sigurður Elvar Þórólfsson

Fréttir
- Auglýsing -