spot_img
HomeFréttirHreinsað út hjá Knicks - Beðið eftir LeBron?

Hreinsað út hjá Knicks – Beðið eftir LeBron?

21:35:54 

 NY Knicks skipti í gær frá sér þeim Jamal Crawford, Zach Randolph og Mardy Collis. Randolph og Collins fóru til Clippers í skiptum fyrir Cuttino Mobley og Tim Thomas og Crawford fer til Golden State fyrir Al Harrington.

Donnie Walsh og Mike D‘Antoni eru að vinna að upprisu þessa gamla stórveldis og eru þessi skipti gerð með það að sjónarmiði að losa hina tröllauknu samninga sem Knicks voru með eftir hörmungarárin með Isiah Thomas við stjórnvölinn.

 Nánari útlistun á skiptunum hér að neðan:

 

Allir leikmennirnir sem NY fékk eru með samninga sem renna út 2010, þegar samningar LeBron James og Chris Bosh renna út og er engum blöðum um það að flétta að annar þeirra, eða jafnvel báðir, eru takmarkið.  

Til þess að fá þá til að hengja gallann sinn upp í Madison Square Garden þarf hins vaegar meira til en feitt veski, því nú ríður á fyrir Knicks að byggja upp leikmannahóp til að gera liðinu kleift að keppa um meistaratitilinn strax og stjörnurnar kæmu.

Clippers og Golden State geta ekki kvartað yfir sínu hlutskipti úr þessum skiptum því Crawford er afar góður sóknarmaður, þó varnarleikur hans sé ekki til fyrirmyndar, og Randolph er gríðarlega öflugur framherji sem skorar og frákastar með þeim bestu í deildinni.

Knicks eru þó hvergi nærri hættir því þeir leita nú logandi ljósi að liðum sem vilja taka við hinum þéttvaxna Eddy Curry og vandræðagemsanum Stephon Marbury. 

Curry er enn ungur og hefur ótvíræða hæfileika, en hefur allan ferilinn spilað á hálfum hraða og átt í vandræðum með aukakílóin. Þess vegna ættu einhver lið að hafa áhuga á honum og hafa lið eins og Charlotte, Miami og Oklahoma Thunder verið nefnd í því sambandi. 

Marbury verður hins vegar erfiðara að losna við því að hann er kominn á síðustu ár ferlisins, er með um 20 milljónir dala í laun á ári næstu tvö ár og hann hefur sannað æ ofan í æ að hann er lítt skólaður í listinni að umgangast annað fólk. 

Sögur herma að Knicks hafi boðið Miami að skipta á sléttu, Marbury fyrir Shawn Marion, en Miami hafi hafnað strax.

Marbury, sem hefur ekkert leikið með Knicks i vetur var settur í galla í gær þegar liðið tapaði gegn Millwaukee Bucks, þar sem einungis sjö leikmenn voru eftir í liðinu. Hann neitaði hins vegar að stíga út á völlinn, D‘Antoni til mikillar gremju.

Heimild: Sports Illustrated. 

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -