spot_img
HomeFréttirHreinn iðnaðarsigur Þórs á Haukum

Hreinn iðnaðarsigur Þórs á Haukum

Vor í lofti sem þýðir einfaldlega að úrslitakeppnin er farin af stað. Tveir leikir fóru fram í gær og hélt veislan áfram í kvöld með leik Hauka og Þórs. Liðin í fjórða og fimmta sæti deildarinnar voru að þessu sinni Haukar og Þór frá Þorlákshöfn. Einungis einum sigri munaði á þessum liðum sem sýnir bersýnilega hversu jöfn liðin eru. Því mátti búast við háspennuleik þar sem liðin þyrftu að gefa allt í leikinn.

 

Einbeitingin skein af hverju andliti gestanna sem mættu mun grimmari og ákveðnari til leiks. Þannig varð munurinn á liðunum tíu stig strax um miðbik hálfleiksins. Haukar urðu fljótt pirraðir og örfaír umdeildir dómar urðu bjuggu til mikil læti. Vance Hall var eins og af öðrum heimi í  fyrsta fjórðung og endaði með 13 stig af 25 stigum Þórs.

 

Varnarleikur liðanna var í aðalhlutverki í fyrsta fjórðung sem mátti best sjá á því að staðan var 19-25 að honum loknum. Annar fjórðungur var eign heimamanna í Haukum þar sem þeir komust loks yfir. Þór var einungis með tvö stig á fyrstu átta og hálfri mínútu fjórðungsins og fyrir vikið laumuðu Haukar sér framúr og komust í tólf stiga forystu.

 

Þessu má helst þakka algjörlega frábærri vörn Emils Barja á Vance Hall sem komst hvorki lönd né strönd í fjórðungnum. Hiti fór að færast í leikinn og spennustigið var mjög hátt, dómarar leiksins ræðu illa við leikinn á þessum tímapunkti og fór það mikið í skapið á gestunum.

 

Þór setti ekki stig á sjö mínútna kafla í fjórðungnum og enduðu einungis með fimm stig í honum. Haukar fóru því með níu stiga forystu í hálfleikinn 41-32. Emil Barja var frábær í fyrri hálfleik með 12 stig og 90% skotnýtingu.

 

Kári Jónsson varð fyrir því óhappi að lenda á Ragnari Nathanelsyni og fór sárþjáður af velli. Hann virtist meiðast á baki en um algjört óviljaverk var að ræða. Kári reyndi að koma aftur til leiks en meiðslin héldu honum frá út leikinn.

 

Þriðji leikhluti fór hrikalega hægt af stað og var staðan í honum til að mynda 3-4 eftir heilar fimm mínútur af leik. Baráttan var í algleymi þar en stigaskorið fylgdi ekki með. Emil Barja sem hafði spilað frábæra vörn á Vance Hall fékk smá pásu á bekknum og við það tókst þeim síðarnefnda að búa til meira pláss og fleiri stig.

 

Hitinn, pirringurinn og spennustigið fór hækkandi og kom fram tæknivillur og stuð í massavís. Þór náði að minnka muninn á milli liðanna nokkuð í þriðja fjórðung eða niður í fimm stig fyrir loka fjórðung leiksins.

 

Það var morgunljóst að mikið var í húfi í byrjun fjórða fjórðungs. Bæði lið hittu ekki neitt og var sóknarleikurinn æstur og tilviljannakendur. Þórsarar náðu þó muninum niður í eitt stig fljótlega í fjórða fjórðung. Bæði lið voru snemma lent í miklum villuvandræðum enda léku bæði lið fast.

 

 

Munurinn á liðunum rokkaði á milli tveggja til fimm stiga í fjórða fjórðung, Haukum í vil. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum fékk Emil Barja sína fimmtu villu og við það hrundi leikur Hauka. Þannig náði Þór forystu þegar einungis ein mínúta var eftir af leiknum og spennan í húsinu óbærileg.

 

Haukar voru einungis með tvö stig eftir að Emil Barja fór útaf og var það banabiti liðsins því Þór hafði að lokum algjöran iðnaðarsigur 64-67. Þór hirðir því heimavallaréttinn af Haukum og halda í annan leikinn með sigur.

 

Sérstakir áhugamenn um baráttu, varnarleik og lágt stigaskor fengu heldur betur eitthvað fyrir sinn snúð í þessum leik sem einkendist af þessu þrennu. Leikurinn var gríðarlega kaflaskiptur þar sem bæði lið áttu gríðarlega mikið inni og hefði sigurinn auðveldlega getað dottið báðu megin.

 

Dómarar leiksins voru ekki öfundsverðir á verkefni sínu í kvöld þar sem hitinn var mikill. Þrátt fyrir það verður að segjast að þeir skiluðu dagsverki sínu ekki nægilega vel. Réðu ekkert við leikinn og voru hársbreidd frá því að missa hann úr höndunum, auk þess sem þeir stoppuðu leikinn of oft og hægðu á honum.

 

Maður leiksins var að sjálfsögðu Vance Hall með 33 stig og 10 fráköst, hann var eini leikmaður Þórs sóknarlega sem spilaði á pari en varnarlega munaði mikið um framlag þeirra Emils Karels og Halldórs Garðars. Lýst er eftir Ragnari Nathanelssyni en hann átti slakan leik, var pirraður frá fyrstu mínútu, endaði með 2 stig og tapaði alltof mörgum fráköstum sem áttu að vera hans.

 

Hjá Haukum var Brandon Mobley drjúgastur með 25 stig en hann var nánast sá eini sem hitti í seinni hálfleik í liðinu. Emil Barja var þó mikilvægastur liðinu því hann gat splúndrað vörninni og látið eitthvað gerast sóknarlega en það hvarf alveg þegar hans naut ekki við.

Skotnýting Hauka var 29% og þar af 14% fyrir utan þriggja stiga línuna en það var klárlega það sem skildi á milli í kvöld.

 

 

Annar leikur liðanna fer fram á mánudag kl 19:15 í Þorlákshöfn. Ef horft er á þennan leik er ljóst að það verður ekki tomma gefin eftir í þeim leik en Haukar eru strax komnir með bakið upp við vegg og þurfa nú að sigra leik í Þorlákshöfn sem hefur ekki reynst barnaleikur á síðustu árum.

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl eftir leik:

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Axel Finnur Gylfason

Fréttir
- Auglýsing -